Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12

ÍSÍ úthlutar afreksstyrkjum

23.01.2015Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands samþykkti, fimmtudaginn 22. janúar 2015, tillögur stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ að úthlutun fyrir árið 2015. Styrkveitingar ÍSÍ að þessu sinni nema samtals rúmlega 122 milljónum króna

Til Afrekssjóðs ÍSÍ bárust umsóknir frá 26 sérsamböndum og einni íþróttanefnd ÍSÍ. Hljóta öll þessi sambönd styrk og er það vegna 36 landsliðsverkefna, 21 liða og vegna verkefna 52 einstaklinga. Sótt var um styrki til sjóðsins vegna verkefna 97 einstaklinga og er aðeins hluti þeirra verkefna styrktur að þessu sinni.

Rétt er að leggja áherslu á að það eru sérsambönd sem hljóta styrki vegna verkefna tilgreindra íþróttamanna, en ekki íþróttamennirnir sjálfir. Flokkun í A, B og C flokka er hugsuð til að skapa ákveðið viðmið varðandi upphæðir og þjónustu.

Á Íþróttaþingi 2013 var ákveðið að fella niður Styrktarsjóð ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna og sameina hann Afrekssjóði ÍSÍ. Sú sameining átti sér stað fyrir ári síðan og er nú verið að úthluta í annað sinn úr sameinuðum Afrekssjóði ÍSÍ.

Þrátt fyrir að úthlutað sé að þessu sinni rúmlega 122 milljónum króna, sem er hækkun frá styrkjum undanfarinna ára (undantekning þó árið 2012), er enn töluvert í að styrkir ÍSÍ standi undir öllu afreksstarfi sérsambandanna.

Þegar skoðaðar eru umsóknir sérsambandanna til Afrekssjóðs ÍSÍ, sést eftirfarandi:

- Kostnaðaráætlanir þeirra 27 sérsambanda/íþróttanefnda ÍSÍ sem sóttu um styrk vegna íþróttamanna, liða og verkefna til Afrekssjóðs ÍSÍ 2015 nema rúmlega 1.034 m.kr. og hafa þessar tölur aldrei áður verið svona háar.
- Framlag Afrekssjóðs ÍSÍ til sérsambanda/íþróttanefnda ÍSÍ er kr. 122.310.000 og nemur um 11,8% af kostnaðaráætlun þeirra vegna þessara verkefna. Þess ber að geta að ekki er sótt um styrk vegna allra landsliðsverkefna sambanda.
- Þetta hlutfall af kostnaðaráætlunum er hærra en á síðustu árum, miðað við stöðu umsókna í byrjun árs. Þannig var hlutfall styrkja 10,3% í upphafi ársins 2014 og endaði í 11,9% með þeim viðbótarúthlutunum sem áttu sér stað síðar á árinu.

Framlag ríkisins til Afrekssjóðs ÍSÍ fyrir árið 2015 helst óbreytt frá 2014 og er 70 m.kr. Árið 2013 var þessi upphæð 55 m.kr. og árið 2012 var framlag ríkisins 34,7 m.kr. auk þess sem að styrk vegna undirbúnings fyrir Ólympíuleikana í London að upphæð 25 m.kr. var úthlutað til sérsambanda ÍSÍ í gegnum Afrekssjóð ÍSÍ. Afrekssjóður ÍSÍ er annars fjármagnaður með hlutdeild úr tekjum íþróttahreyfingarinnar frá Íslenskri Getspá samkvæmt ákvörðun Íþróttaþings ÍSÍ.

Styrkupphæðir A, B og C styrkja, sem sérsamband hlýtur vegna einstaklinga voru hækkaðar á árinu 2013. Þannig fór A-styrkur úr kr. 160 þúsund á mánuði í kr. 200 þúsund á mánuði, B-styrkur úr kr. 80 þúsund í kr. 120 þúsund á mánuði og C-styrkur úr kr. 40 þúsund í kr. 60 þúsund á mánuði. Það ber að ítreka að styrkir sjóðsins til sérsambanda vegna verkefna íþróttamanna eru fyrst og fremst vegna kostnaðar við þátttöku í mótum og keppnum og undirbúnings vegna þeirra.

Fyrir árið 2015 eru örlitlar breytingar á listum þeirra sem eru metnir með A, B og C viðmið, þ.e. núna eru 9 eru metnir til A-styrks, 1 til B-styrks og 6 til C-styrks.

Sjóðsstjórnin leggur áfram áherslu á að efla þjónustu fagteymis og fræðslu fyrir íþróttamenn sérsambanda. Þannig munu sérsamböndum verða gert kleift að sækja sérstaklega um styrk til sjóðsins vegna verkefna sem snúa að fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðum frá skilgreindu fagteymi sérsambands eða ÍSÍ. Afrekssjóður mun einnig styrkja þjónustuþætti vegna þeirra íþróttamanna sem skilgreindir eru á A, B og C styrkjum sjóðsins.

Í reglugerð Afrekssjóðs ÍSÍ er fjallað um kröfur um afreksstefnur sérsambanda. Þannig er lögð áhersla á að öll sérsambönd móti sér stefnu í afreksíþróttum sem hljóti umfjöllun og samþykki á sérsambandsþingi eða formannafundi sérsambands. Flest sérsambönd hafa mótað sér slíka stefnu og/eða eru að vinna að henni og endurbótum á núverandi stefnu. Sérsambönd hafa þannig skilað inn áætlun um frekari vinnu við stefnumótun sambandsins og eru styrkveitingar ársins tengdar þeirri vinnu.

Á árinu eru margir stórviðburðir á dagskrá eins og HM í handknattleik karla og EM í körfuknattleik karla. Smáþjóðaleikar fara fram á Íslandi í byrjun júní og fyrstu Evrópuleikarnir fara fram í Baku, í Azerbaijan síðar í þeim mánuði. Þá styttist í Ólympíuleika 2016 í Ríó og árið framundan er mjög mikilvægt keppendum í íþróttagreinum þar sem lágmörk og staða á heimslista ræður því hverjir vinna sér inn keppnisrétt á leikana.

Búast má við að frekari styrkjum verði úthlutað á árinu 2015 og mun stjórn Afrekssjóðs ÍSÍ fylgjast náið með framvindu og árangri á árinu.

Úthlutun sjóðsins kynntu Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Örn Andrésson formaður Afrekssjóðs ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ og Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ.
Styrkveitingar 2015 má sjá hér