Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

21

Íþróttamaður ársins

Samtök íþróttafréttamanna (SÍ) kjósa ár hvert Íþróttamann ársins, Lið ársins og Þjálfara ársins. Við val á íþróttamanni ársins taka atkvæðisbærir félagar innan SÍ tillit til árangurs, reglusemi, ástundunar, prúðmennsku og framfara. Hér má sjá lista yfir íþróttamenn ársins frá upphafi

 

Um verðlaunagripinn

Í desember 2006 var kynntur til leiks nýr verðlaunagripur sem ætlaður er íþróttamanni ársins.  Þjóðminjasafni Íslands var við þetta tækifæri falið að varðveita styttuna góðu sem hafði fylgt sæmdarheitinu Íþróttamaður ársins frá 1956.

nullNýji verðlaunagripurinn sem ÍSÍ gaf SÍ var hannaður af Sigurði Inga Bjarnasyni gullsmið en það var forseti ÍSÍ, Ólafur Rafnsson, sem afhenti formanni SÍ stofnskrá verðlaunagripsins og hann þar með til varðveislu næstu 50 árin. Íþróttamaður ársins mun einnig fá eignarbikar sem vísar til stóra verðlaunagripsins og hannaður er af sama gullsmið.

Verkið er smíðað með vísun í náttúru Íslands sem mótað hefur þessa þjóð og hennar þrótt. Náttúra Íslands endurspeglast í margvíslegu efni verksins, lögun þess og litbrigðum. Þessir eiginleikar verksins vísa um leið til fjölbreytni íþróttanna og þess styrks og þeirrar þrautseigju sem einkenna afreksmenn íslenskra íþrótta hverju sinni.
 
Birkið 
Birkið kemur úr Hallormsstaðaskógi og vísar til þolgæðis íslenska birkisins. Þessarar plöntu sem vex með jörðu og út úr klettaveggjum gljúfra frekar en að gefa eftir en teygir síðan stofna sína beina til himins þegar heppilegt umhverfi er að finna.
 
Hraunið
Hraunið í verkinu kemur frá Þingvöllum, þar sem undirstöðu lands og þjóðar er að finna. Þessarar náttúruperlu Íslands og þjóðheilaga staðar þar sem Alþingi var stofnað og viðhaldið með tilheyrandi íþróttaiðkun á hverjum tíma.
 
Súlurnar
Súlur verksins tákna höfuðáttirnar. Súlan úr silfri í miðjunni hefur eirkjarna sem brýst fram hér og hvar með roðablæ líkt og eldmóður íþróttamannsins og líkt og jarðeldar íslenskrar náttúru. Silfrið stendur í senn fyrir margbreytileika annars frumafls íslenskrar náttúru sem er vatnið – hreyfiafl hvort sem það er fljótandi eða frosið. Súlan endar í silfurskál, sem styður við glerskál sem er tákn þeirrar hreinskipti og þess heiðarleika sem fólginn er í keppnisanda íþróttanna.
 
Glerið
Glerið er um leið einnig tákngervingur þess að þrátt fyrir allan þann styrk sem í manneskjunni býr, sem og öðrum þáttum náttúrunnar, þá eru þessi sköpunarverk brothætt þegar öllu er á botninn hvolft. Litir glerskálarinnar eiga rætur sínar að rekja til jökla og elda Íslands.
 
Höfundur og smíði
Höfundur verksins er Sigurður Ingi Bjarnason, gullsmiður. Sér til halds og traust við vinnuna hafði hann góðan hóp manna sem eru gullsmiðirnir Sveinn Gunnarsson, Hans Kristján Einarsson og Sveinn Ottó Sigurðsson. Trésmiðurinn Örn Jónsson og glerblásararnir Jette Böge Sörensen og Rickard Thunberg.