Vilhjálmur Einarsson - Frjálsíþróttir
Þegar kom að því að útnefna í fyrsta skipti afreksíþróttamann í Heiðurshöll ÍSÍ á afmælishátíð ÍSÍ þann 28. janúar 2012 kom berlega í ljós hver á helst hug okkar og hjarta í þeim efnum. Það er Heiðursfélagi ÍSÍ, Vilhjálmur Einarsson, þrístökkvari og okkar fyrsti verðlaunahafi á Ólympíuleikum.
Vilhjálmur fæddist 5. júní árið 1934. Hann hóf sinn keppnisferil á skólamótum á Eiðum um 1950. Vilhjálmur hreppti silfurverðlaun í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu þann
27. nóvember árið 1956 með stökki upp á 16,26 metra. Stökkið var Ólympíumet í 2 klukkustundir en Da Silva frá Brasilíu bætti það með sigurstökki sínu. Vilhjálmur varð þar með fyrsti Íslendingurinn til þess að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum og er sá eini hingað til sem hefur sett Ólympíumet.
Vilhjálmur var sigursæll íþróttamaður allan sinn feril. Hann var einn af fremstu þrístökkvurum heims árin 1956-1962 og einnig á Evrópumælikvarða í langstökki. Meðal afreka Vilhjálms voru 3. sæti á Evrópumeistaramóti árið 1958, 5. sæti á Ólympíuleikunum í Róm á Ítalíu árið 1960, með glæsilegu stökki upp á 16,37 metra og 6. sæti á Evrópumeistaramóti í Belgrad árið 1962, þar sem hann lauk ferli sínum með glæsibrag.
Vilhjálmur var fyrstur til að verða valinn Íþróttamaður ársins, þann 20. janúar árið 1956. Hann var valinn fjórum sinnum í viðbót, árin 1957, 1958, 1960 og 1961. Vilhjálmur hefur ætíð sýnt íþróttum og íþróttahreyfingunni á Íslandi mikinn áhuga og velvilja. Hann hefur verið mörgum íþróttamanninum fyrirmynd og blásið okkur þjóðinni bjartsýni í brjóst með því að sýna og sanna að við getum vel unnið til verðlauna á alþjóðlegum stórmótum.
Það er ÍSÍ mikill heiður að útnefna Vilhjálm Einarsson í Heiðurshöll ÍSÍ.
Myndasíða ÍSÍ - Vilhjálmur Einarsson.
Hér má sjá samantekt sem RÚV birti þegar 60 ár voru liðin frá stökkinu í Melbourne árið 1956.