Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20

Heidursholl_Torfi.jpg (243075 bytes)

Torfi Bryngeirsson

Torfi Bryngeirsson var útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ á 72. Íþróttaþingi ÍSÍ þann 18. apríl árið 2015.

Torfi fæddist 11. nóvember 1926 og lést 16. júlí 1995. Hann ólst upp í Vestmannaeyjum og hóf snemma að æfa stangarstökk en á hans uppvaxtarárum var stangarstökkskeppni einn af hápunktum á Þjóðhátíð Vestmannaeyinga. Torfi setti fyrsta Íslandsmetið sitt í greininni sumarið 1947 er hann stökk 3,70 metra.

Torfi keppti á Ólympíueikunum í London árið 1948 og var nálægt því að komast í úrslit. Á Evrópumeistaramótinu í Brussel 1950 keppti hann í stangarstökki og langstökki, sem var hans aukagrein, og komst í úrslit í báðum greinum. Þegar til kom reyndist úrslitakeppni í greinunum fara fram á sama tíma. Torfi taldi sigurlíkur sínar í langstökki meiri en í stangarstökki og kaus því að keppa í úrslitum í langstökki. Torfi stökk 7,32 metra, 12 cm lengra en næsti maður, og varð Evrópumeistari í langstökki. Mögulega hefði hann einnig átt sigurmöguleika í stangarstökki mótsins sem vannst með stökki upp á 4,30 metra.

Þann 29. júní 1951 tóku Íslendingar þátt í þriggja landa frjálsíþróttakeppni í Osló, ásamt Dönum og Norðmönnum og báru sigur úr býtum, eins og frægt er orðið. Torfi sigraði þar í langstökki og stangarstökki, þar sem hann var hársbreidd frá því að setja Evrópumet og hljóp einnig endasprettinn í sigri íslensku boðhlaupssveitarinnar í 4x100 m boðhlaupi mótsins. Sama sumar stökk hann 4,32 metra í stangarstökki sem var eitt besta stökkið í heiminum það árið.

Sumarið 1952 setti Torfi Íslandsmet í stangarstökki, 4,35 metra og stóð met hans í nokkur ár. Síðasta stórmót hans var Evrópumeistaramótið í Bern 1954 þar sem hann komst í aðalkeppnina í stangarstökki en meiddist og varð að hætta keppni.

Torfi var víðkunnur fyrir íþróttaafrek sín og má nefna að mynd af honum prýddi forsíðu breska íþróttablaðsins World Sports árið 1951.

Það er ÍSÍ mikill heiður að útnefna Torfa Bryngeirsson í Heiðurshöll ÍSÍ.

Myndasíða ÍSÍ - Torfi Bryngeirsson