Íþróttamaður ársins 2025 er Eygló Fanndal Sturludóttir
03.01.2026
Í kvöld voru úrslit í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna (SÍ) um Íþróttamann ársins 2025 tilkynnt, í beinni útsendingu RÚV frá sameiginlegu hófi ÍSÍ og SÍ í Silfurbergi í Hörpu. Að þessu sinni var það Eygló Fanndal Sturludóttir, afreksíþróttakona úr ólympískum lyftingum sem hreppti heiðursnafnbótina.
Þau þrjú efstu í kjörinu voru Eygló, Gísli Þorgeir Kristjánsson handknattleiksmaður og Tryggvi Snær Hlinason, körfuknattleiksmaður.
Um sigurvegarann:
Lyftingakonan Eygló Fanndal Sturludóttir er íþróttamaður ársins 2025. Er þetta í fyrsta skipti sem Eygló er kosin íþróttamaður ársins en hún hafnaði í þriðja sæti í kjörinu árið 2024. Eygló átti hreinlega magnað ár þar sem hún varð Evrópumeistari kvenna í -71 kg ólympískum lyftingum og Evrópumeistari í jafnhendingu. Auk þess var hún silfurverðlaunahafi í snörun.
Eygló var einnig sigurstrangleg á heimsmeistaramótinu á árinu en missti af því vegna meiðsla.
Eygló hlaut 532 stig í kjörinu í ár þar sem mest var hægt að fá 600 stig.
Þjálfari ársins var valinn Ágúst Þór Jóhannsson hjá kvennaliði Vals í handknattleik og Lið ársins var valið kvennalið Vals í handknattleik.
ÍSÍ óskar Eygló, Ágústi Þór, liðsmönnum kvennaliðs Vals í handknattleik og teymi þeirra, sem og íþróttafólki sérsambanda 2025 hjartanlega til hamingju með titlana og viðurkenningarnar.



