„Mikill heiður að hljóta endurnýjun á viðurkenningu ÍSÍ“
Hestamannafélagið Sleipnir fékk endurnýjun viðurkenningar félagsins sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á nefnda- og sjálfboðaliðakvöldi félagsins í félagsheimilinu Hlíðskjálf 10. desember síðastliðinn. Það var Hafsteinn Pálsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ sem afhenti Berglindi Sveinsdóttur formanni félagsins viðurkenninguna að viðstöddu fjölmenni á þessari vel heppnuðu samkomu félagsins. Það er einkar ánægjulegt og til eftirbreytni að félagið haldi viðburð sem þennan sem eingöngu er ætlaður sjálfboðaliðum. Á myndunum eru þau Berglind og Hafsteinn með viðurkenninguna á milli sín auk hópmyndar af stjórn Sleipnis með Hafsteini, þeim Bryndísi Guðmundsdóttur, Önnu Björgu Níelsdóttur, Elísabetu Sveinsdóttur og Berglindi Sveinsdóttur. Einnig eru myndir af Berglindi og Bryndísi þar sem Bryndísi voru færðar þakkir og blóm fyrir skipulagningu viðburðarins og af þeim Rögnu Gunnarsdóttur Sjálfboðaliða ársins á Suðurlandi og eiginmanni hennar Guðmundi Arnarssyni.
„Það er okkur hjá Hestamannafélaginu Sleipni mikill heiður að hljóta endurnýjun á viðurkenningu ÍSÍ sem Fyrirmyndarfélag. Hún staðfestir að við leggjum metnað í öflugt og fjölbreytt félagsstarf með góða umgjörð að leiðarljósi og jákvæð gildi. Endurnýjunin er okkur hvatning til að halda áfram að bæta starfsemina og vera góð fyrirmynd innan hreyfingarinnar“, sagði Berglind Sveinsdóttir formaður Sleipnis af þessu tilefni.