Farsældarráð og svæðisstöðvar íþróttahéraða
20.11.2025
Fimm farsældarráð hafa nú verið stofnuð á landsvísu og er ánægjulegt að skýra frá því að svæðisstöðvar íþróttahéraða eiga fulltrúa í þeim öllum. Ráðin eru: Farsældarráð höfuðborgarsvæðisins, Farsældarráð Norðurlands eystra, Farsældarráð Suðurlands, Farsældarráð Vesturlands og Farsældarráð Suðurnesja.
Farsældarráð í landinu byggja á samningi mennta- og barnamálaráðuneytisins við sjö landshlutasamtök sveitarfélaga frá október 2024. Með samningnum skuldbundu öll sveitarfélög landsins sig til að hefja innleiðingu 5. greinar laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
Nýjasta farsældarráðið er Farsældarráð höfuðborgarsvæðisins sem stofnað var 14. nóvember sl. Aðilar að ráðinu eru sex sveitarfélög, þ.e. Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnes. Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki í þjónustu við börn þar sem þau bera ábyrgð á skólaþjónustu, leik- og frístundastarfi, félagsþjónustu og barnavernd. Með stofnun ráðsins er stigið mikilvægt skref í átt að samstilltu átaki sveitarfélaga og ríkisstofnana um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.
Auk sveitarfélaganna eiga aðild að ráðinu Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, framhaldsskólarnir á höfuðborgarsvæðinu og íþróttahreyfingin á höfuðborgarsvæðinu.
Myndin er tekin við stofnun Farsældarráðs höfuðborgarsvæðisins.