Áframhaldandi stuðningur við Allir með!
10.11.2025
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, Alma Möller heilbrigðisráðherra og Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, ætla að veita 60 milljónum króna til að auka þátttöku og virkni fatlaðs fólks í íþróttastarfi, einkum fatlaðra barna og ungmenna. Verkefnið er liður í að ná markmiðum 30. greinar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fjallar meðal annars um þátttöku fatlaðs fólks í íþróttum.
Um er að ræða áframhald á verkefninu „Allir með“ sem hófst árið 2022 undir merkjunum „Farsælt samfélag fyrir öll – brúum bilið“. Ábyrgð þess er á höndum Íþróttasambands fatlaðra sem vinnur það í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands. Bakhjarlar verkefnisins eru ráðuneytin þrjú, ÖBÍ réttindasamtök og Landssamtökin Þroskahjálp.
Ráðherrarnir tilkynntu um styrkinn á „Allir með-leikunum“ sem fram fóru í Laugardalshöllinni 8. nóvember. Þar tók fjöldi fatlaðra barna þátt í fjölbreyttum íþróttum, svo sem handbolta, körfubolta, fimleikum, frjálsum íþróttum, badminton, keilu, pílu, klifri og jassballet.



