UÍF er 13. Fyrirmyndarhérað ÍSÍ
24.10.2025
Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar fékk í gær viðurkenningu sem Fyrirmyndarhérað ÍSÍ á formannafundi íþróttahéraðsins í Vallarhúsinu á Ólafsfirði í gær. UÍF er nú 13. íþróttahéraðið sem fær viðurkenningu sem Fyrirmyndarhérað ÍSÍ.
Það var Viðar Sigurjónsson sérfræðingur á stjórnsýslusviði ÍSÍ sem afhenti Óskari Þórðarsyni formanni UÍF viðurkenninguna. UÍF hafði um talsverða hríð unnið að þessari viðurkenningu og öflug aðstoð frá svæðisfulltrúum á Norðurlandi eystra varð íþróttahéraðinu dýrmæt á lokametrunum.
„Við vildum ramma inn starfið, umgjörð sambandsins og markmið. Við töldum einnig mikilvægt að sýna fordæmi, gerast Fyrirmyndarhérað ÍSÍ, og þannig vonandi kveikja áhuga fleiri aðildarfélaga til að fara í þá vinnu að gerast Fyrirmyndarfélög ÍSÍ. Mikil hvatning og aðstoð frá Viðari á skrifstofu ÍSÍ á Akureyri og svæðisfulltrúum á Norðurlandi eystra varð okkur afar dýrmæt í þessari vinnu“, sagði Óskar Þórðarson formaður UÍF af þessu tilefni.
Fyrirmyndarhérað ÍSÍ er gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar er snýr að íþróttastarfi. Íþróttahéruð geta sótt um viðurkenninguna til ÍSÍ að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem finna má á gátlista Fyrirmyndarhéraða. Viðurkenningin gildir í fjögur ár.Viðurkenningunni fylgja ýmsir kostir. Nefna má þætti eins og skipurit, skilgreingar á hlutverki stjórnar og starfsmanna, skýrar stefnur í málaflokkum eins og fræðslu- og forvarnarmálum, jafnréttismálum, umhverfismálum og félagsmálum auk persónuverndarstefnu og gerð siðareglna.
