Fjölmennt þing UMFÍ og sjö ný kjörin í stjórn

54. Sambandsþing UMFÍ var haldið í Stykkishólmi um síðustu helgi. Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, var sjálfkjörinn en hann var einn í formannsframboði. Sjö ný voru kjörin í stjórn UMFÍ í ellefu stjórnarsæti.
Ný stjórn UMFÍ er eftirfarandi (í stafrófsröð, að undanskildum formanni):
- Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ
- Guðný Stefanía Stefánsdóttir, sem kemur frá Héraðssambandi Vestfjarða, og er hún ný í stjórninni.
- Halla Margrét Jónsdóttir, formaður Ungmennaráðs UMFÍ og kemur af sambandssvæði Íþróttabandalags Akraness, kemur sömuleiðis ný inn í stjórn UMFÍ.
- Helgi Sigurður Haraldsson frá Héraðssambandinu Skarphéðni (HSK) er nýr inn.
- Margrét Sif Hafsteinsdóttir, sem kemur frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur, kemur ný inn.
- Skúli Bragi Geirdal, sem kemur frá Íþróttabandalagi Akureyrar (ÍBA), kemur nýr inn í stjórnina.
- Sigurður Óskar Jónsson hlaut kosningu á ný en hann kemur frá Ungmennasambandinu Úlfljóti (USÚ).
Í varastjórn eru:
- Birgir Már Bragason, kemur nýr inn í stjórnina. Hann sat þingið í nafni Íþróttabandalags Reykjanesbæjar (ÍRB).
- Gunnar Þór Gestsson, sem sat í stjórn og var varaformaður fyrri stjórnar. Gunnar Þór er jafnframt formaður Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS).
- Ragnheiður Högnadóttir, sem sat áður í stjórninni.
- Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, sem kemur nýr inn. Hann kemur frá Ungmennasambandi Vestur-Skaftafellssýslu (USVS).
Þau Ásgeir Sveinsson, Gunnar Gunnarsson, Guðmunda Ólafsdóttir, Guðmundur Sigurbergsson, Hallbera Eiríksdóttir, Málfríður Sigurhansdóttir og Rakel Másdóttir hætta nú í stjórn UMFÍ.
Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, og Willum Þór Þórsson, forseti ÍSÍ, voru á meðal fjölmargra gesta þingsins og báðir fluttu ávarp. Andri flutti ávarp við setningu þingsins og ræddi þar um mikilvægt framlag sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni.
„Á bak við hvern íþróttaviðburð, æfingu og mót standa ótal sjálfboðaliðar sem gefa af tíma sínum – oft án þess að fá nokkra umbun nema gleðina af því að leggja sitt af mörkum. Þeir eru tímahöfundar í skugga sviðsljóssins: þeir sem mæta snemma til að setja upp völlinn, skrá þátttakendur, selja miða, baka kökur og tryggja að allt gangi snurðulaust fyrir sig. Sjálfboðaliðastarf í íþróttum er lifandi dæmi um hvernig tími getur verið verðmætasta gjöfin. Það er ekki aðeins tíminn sem fer í verkefnin – heldur líka tíminn sem skapar tengsl, reynslu og samfélag. Margir sjálfboðaliðar hafa gefið áratugi af lífi sínu til íþróttahreyfingarinnar, og án þeirra væri ekki hægt að halda úti mörgum af þeim viðburðum sem við tökum sem sjálfsögðum. Þá er tíminn einnig lykilatriði í því að byggja upp framtíð íþróttanna. Sjálfboðaliðar veita ungum iðkendum stuðning, fyrirmyndir og öruggt umhverfi til að vaxa. Þeir gefa af sér tíma til að skapa tækifæri fyrir aðra – og þannig verður tími þeirra að fjárfestingu í framtíð annarra. Í heimi þar sem tími er oft talinn dýrmætur og skortur á honum ríkjandi, er sjálfboðaliðastarf í íþróttum tákn um óeigingjarnt samfélagslegt framlag. Það minnir okkur á að stundum er verðmætasta framlagið ekki peningar – heldur tími, hjarta og nærvera,“ sagði Andri meðal annars í ávarpi sínu.
Willum Þór var viðstaddur þingið á laugardegi og í ávarpi hans snerti hann meðal annars á mikilvægi þess að íþróttahreyfingin sé samstíga. Hann kom einnig inn á aðgerðir íþróttahreyfingarinnar í skattamálum en vinnuhópur, sem samanstendur m.a. af tveimur sérfræðingum KPMG og tveimur sérfræðingum frá Deloitte ásamt fulltrúum íþróttahreyfingarinnar, hafi nýverið sent frá sér bréf til 33 íþróttafélaga sem öll eiga lið í efstu deildum boltaíþrótta og farið fram á ítarlegar upplýsingar um skattaskil. Willum segir ljóst að stjórnvöld verði að koma að borðinu í þessari vinnu þar sem skattamálin kalla á lagabreytingar.
Fjölmörg mál lágu fyrir þinginu og voru mörg þeirra samþykkt, þar á meðal tillaga frá stjórn um leiðbeinandi tilmæli til íþróttafélaga vegna áfengissölu á íþróttaviðburðum. Stjórn UMFÍ hefur heimild til að leita eftir samstarfi við ÍSÍ um mótun skýrra tilmæla og reglna um aðgengi að áfengi á viðburðum íþróttafélaga. Þá voru aðgerðir gegn erlendum spilafyrirtækjum einnig til umræðu og skorað á stjórnvöld að grípa til aðgerða í þeim efnum ásamt því að tryggja áfram fjármögnum svæðisstöðva íþróttahéraðanna og Hvatasjóð íþróttahreyfingarinnar. Einnig var samþykkt að UMFÍ fari, í samráði við ÍSÍ, af stað í heildstæða stefnumótun fyrir íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna. Samtökin eiga í vaxandi samstarfi sem kallar á stefnumótun.
Fleiri fréttir af þinginu má finna á heimasíðu UMFÍ.
Ljósmyndir/Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, UMFÍ