Þátttökuverðlaun Göngum í skólann 2025

Þrír skólar voru dregnir út eftir að verkefninu lauk og hlaut hver þeirra 150.000 kr. gjafabréf frá Altis. skóalóð. Skólarnir sem voru dregnir út í ár eru Akurskóli, Flúðaskóli og Grunnskóli Grundarfjarðar. Gjafabréfið má nota til að kaupa íþróttabúnað fyrir íþróttakennslu eða til afnota á skólalóð.
Það er alltaf gaman að frá frásagnir frá skólum og gaman að segja frá því að í Grunnskóla Grundarfjarðar var haldin innanhúskeppni milli bekkja yfir tveggja vikna tímabil á meðan Göngum í skólann stóð yfir. Heildarþátttaka nemenda nam 86%. Mesta þátttakan var í 7. bekk sem náði 96%, en 10. bekkur fylgdi fast á hæla með 95% þátttöku. Það er ljóst að gjafabréfið mun nýtast vel fyrir nemendur og kennara í Grunnskóla Grundarfjarðar.
Í Akurskóla verður verðlaunaafhending vegna þátttöku í bæði Göngum í skólann og Ólympíuhlaupi ÍSÍ haldin mánudaginn 13. október, sem er skemmtileg viðurkenning á góðu starfi nemenda og starfsfólks. Flestir skólar taka einnig þátt í Ólympíuhlaupi ÍSÍ en það er hægt að hlaupa fram að áramótum.
Flúðaskóli tók virkan þátt í Göngum í skólann með fjölbreyttri dagskrá sem innihélt meðal annars göngu- og útivist, sköpunarverkefni með krít og vatnslitum, fjallgöngu á Miðfell, fjöruferð og útihlaup í íþróttum.
Skólar í dreifbýli þar sem börn þurfa að notast við skólabíla hafa aðlagað verkefnið að sínum þörfum sem er virkilega jákvætt og skemmtilegt. Það þarf stundum að hugsa út fyrir boxið. Leik- og Grunnskólinn Hofgarði lokar skólalóðinni í september og allir nemendur mega koma með reiðhjólin með sér í skólann. Þar er tekinn smá tími af skólastarfi til að leyfa börnunum að hjóla í öruggu umhverfi.
Allir skólarnir sýndu mikinn metnað í þátttöku sinni og nýttu tækifærið til að hvetja nemendur til að ganga eða velja annan virkan ferðamáta til og frá skóla. Með því var lögð áhersla á að gera daglega hreyfingu og útiveru að jákvæðum og sjálfsögðum hluta af skóladeginum. Margir skólar nýttu verkefnið jafnframt sem vettvang til að færa íþróttakennslu og aðra hreyfingu út í náttúruna, þar sem útivist og heilsuefling fara saman á skemmtilegan og skapandi hátt. Þátttaka grunnskóla víðsvegar um land sýnir mikilvægi verkefnisins og markar skref í átt að bættri lýðheilsu og varanlegum jákvæðum venjum í daglegu lífi barna og ungmenna.
ÍSÍ þakkar öllum þeim skólum sem tóku þátt og óskar verðlaunaskólunum til hamingju með glæsilegan árangur.
Göngum í skólann er verkefni á vegum ÍSÍ og er styrkt að hluta frá Framvkæmdarstjórn Evrópusambandsins (European Commission) undir formerkjum Íþróttaviku Evrópu.
Mynd: Flúðaskóli