Vel heppnuð afmælishátíð í Elliðaárdal

Íþróttavika Evrópu, European Week of Sport, stendur nú yfir í yfir 40 Evrópulöndum. Íþróttavikan stendur ávallt yfir frá 23. - 30. september og á laugardag var sérstakur afmælisviðburður haldinn í Elliðaárdal í tilefni 10 ára afmælis Íþróttaviku Evrópu.
Viðburðurinn var vel sóttur og veðrið var frábært, þvert á spár veðurfræðinga. Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, og Willum Þór Þórsson, forseti ÍSÍ, ávörpuðu gesti og minntu á mikilvægi hreyfingar á öllum æviskeiðum. Báðir tóku svo þátt í 2 km hlaupi / göngu sem boðið var upp á í Elliðaárdalnum. Í brautinni var Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts með tónlistaratriði, Hringleikur - sirkuslistafélag sýndi listir sínar, Blossi, lukkudýr ÍSÍ, og Sóli, lukkudýr Allir með, hvöttu hlaupara/göngugarpa áfram og að hlaupi loknu var Frjálsíþróttasamband Íslands með stöðvar þar sem hægt var að prófa hinar ýmsu greinar. Kókómjólkur-Klói gaf kókómjólk frá Mjólkursamsölunni, Bollywood Iceland sá um upphitun og dansatriði og þá var Leikhópurinn Lotta með sýningu fyrir þau allra yngstu. ÍSÍ vill sérstaklega þakka sjálfboðaliðunum sem tóku þátt í deginum með okkur en íþróttafélögin Fykir og Víkingur sendu vaska sveit í Elliðaárdalinn.
Fjölmörg sveitarfélög um allt land hafa staðið fyrir viðburðum í Íþróttaviku Evrópu en meginmarkmið íþróttavikunnar er að minna á að hreyfing er lykilatriði að heilbrigðari lífsstíl.