Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12

Norrænn fundur um almennings- og fyrirtækjaíþróttir í Stokkhólmi

12.09.2025

 

Fulltrúar Íslands tóku nýlega þátt í norrænum fundi um almennings- og fyrirtækjaíþróttir þar sem áhersla var lögð á að efla samstarf og miðla reynslu. Fundurinn bar yfirskriftina „Gathering Strength through Company Sport“ og fór fram með þátttakendum frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Íslandi.

Í ár sendi ÍSÍ tvo fulltrúa, Lindu Laufdal, sem kynnti verkefni Fræðslu- og almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, og Margréti Regínu Grétarsdóttir, sem kynnti stöðu verkefnisins Bjartur Lífstíll, heilsuefling 60+, auk framtíðaráforma.

Einn af fyrirlesurum fundarins var Stén Knuth, stjórnmálaráðgjafi hjá Dansk Firmaidræt og fyrrverandi þingmaður. Hann fjallaði um leiðir til að hafa áhrif á stjórnvöld og hvetja til jákvæðrar ákvarðanatöku. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að nálgast stjórnvöld eða styrktaraðila, með lausnir í stað kvartana, sem geti opnað á styrki og aukinn stuðning.

Auk kynninga og fyrirlestra tóku þátttakendur þátt í vinnustofu þar sem unnið var með áskoranir framtíðarinnar. Þar hélt einnig fyrirlestur Michael Dahlén, prófessor í hagfræði við Stockholm School of Economics, sem hefur vakið athygli fyrir óhefðbundnar rannsóknir sínar á sköpunargáfu, hamingju, hvatningu og hreyfingu.

Næsti norræni fundur verður haldinn í Fredrikshavn í Danmörku dagana 10.–14. júní 2026, samhliða World Company Sport Games. Þar geta fyrirtæki sjálf skráð lið til keppni, án milligöngu sérsambanda eða ólympíusambanda. ÍSÍ hefur þegar haft samband við nokkur íslensk fyrirtæki til að kanna áhuga á þátttöku og viðbrögðin hafa verið jákvæð.

ÍSÍ hvetur íslensk lið til þátttöku en hér er skráningarhlekkur á World Company Sport Games:  https://wcsg2026frederikshavn.dk/registration-uk/

Þátttakendur fundarins voru sammála um mikilvægi þess að hittast reglulega til að miðla reynslu og styrkja tengsl. Slíkt samráð eykur möguleika á samstarfi og þróun verkefna á sviði almenningsíþrótta.

Myndir með frétt