ÍSÍ í samstarf við 66°Norður fyrir Vetrarólympíuleikana í Milano Cortina 2026

Ólympíuhópur Íslands á Vetrarólympíuleikunum í Milano Cortina í febrúar á næsta ári mun klæðast fatnaði frá 66°Norður. Áætlað er að keppnisliðið ásamt öðrum í hópnum muni telja hátt í 25 einstaklinga og mun hópurinn einungis klæðast útivistarfatnaði 66°Norður við opinber tilefni, s.s. setningar- og lokahátíð Vetrarólympíuleikanna og við flest önnur tilefni í tengslum við þátttöku Íslands á leikunum.
Willum Þór Þórsson, forseti ÍSÍ, Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður, og Guðbjörg Jakobsdóttir, hönnuður hjá 66°Norður, undirrituðu samstarfssamninginn í höfuðstöðvum ÍSÍ í gær. Í dag, 6. september, eru fimm mánuðir í setningarathöfn Vetrarólympíuleikanna.
66°Norður fagnar 100 ára afmæli á næsta ári og er einstaklega ánægjulegt að fá að taka þátt í stórafmæli fyrirtækisins með þessum hætti.
Guðbjörg Jakobsdóttir mun sjá um hönnun á fatnaði Ólympíufaranna en amma Guðbjargar er Jakobína Valdís Sigurðardóttir, sem árið 1956 keppti á Vetrarólympíuleikunum í Cortina d’Ampezzo fyrst íslenskra kvenna.