Eir hlýtur norrænan styrk fyrir ungt og efnilegt íþróttafólk

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur ákveðið að veita Eir Chang Hlésdóttur norrænan styrk sem fjármagnaður er af Lars Weinaa Foundation í Danmörku. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi styrkur er veittur en hann er ætlaður fyrir ungt og efnilegt íþróttafólk á Norðurlöndunum. Ólympíunefndir Íslands, Svíþjóðar, Finnlands, Noregs og Danmerkur hlutu styrkveitingu fyrir einn íþróttamann hvert, en um er að ræða samstarfsverkefni þessara aðila til næstu ára.
Uppfylla þarf ákveðin skilyrði til að hljóta styrk úr sjóðnum. Íþróttafólk þarf að vera á aldrinum 16 til 21 árs, efnilegt í sinni íþrótt og vera góð fyrirmynd innan sem utan vallar. ÍSÍ tilnefndi Eir Chang til þessa styrks og hlýtur hún 16 þúsund evru styrk eða sem nemur tæplega 2,4 milljónum íslenskra króna á núverandi gengi. Er styrkurinn meðal annars hugsaður til að koma til móts við kostnað hennar vegna æfinga og keppni og mun Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ) koma að umsýslu og aðstoða hana í hennar framþróun.
Eir er 17 ára og byrjaði að æfa frjálsíþróttir árið 2021. Í fyrra náði hún lágmörkum til að keppa á Norðurlandamóti U20, Evrópumeistaramóti U18 og heimsmeistaramóti U18. Á Evrópumeistaramóti U18 komst Eir í undanúrslit 400 metra hlaupsins og vann svo gullverðlaun í 200 metra hlaupi á Norðurlandamóti U20 í júlí síðastliðnum.
Eir hefur sýnt miklar framfarir síðasta árið og bætti hún meðal annars 21 árs gamalt Íslandsmet fullorðinna í 200 metra hlaupi kvenna innanhúss í febrúar. Þá náði hún frábærum árangri á Evrópumeistaramóti U20 ára fyrr í þessum mánuði þegar hún hafnaði í 7. sæti í 200 metra spretthlaupi.
Markmiðið með þessum stuðningi er að létta undir með ungu og efnilegu íþróttafólki, gera því kleift að æfa af kappi og taka næstu skref á íþróttaferlinum. Unnið er að því að móta regluverk í kringum þennan nýja styrk og vorið 2026 verður auglýst eftir umsóknum frá sérsamböndum ÍSÍ.
Á myndunum má sjá Eir með þjálfara sínum, Óðni Birni Þorsteinssyni, og þeim Frey Ólafssyni, formanni FRÍ, Kristínu Birnu Ólafsdóttur, afreksstjóra Afreksmiðstöðvar Íslands, og Andra Stefánssyni, framkvæmdastjóra ÍSÍ.