Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22.10.2026 - 28.11.2019

YOG 2026 - Dakar

Ólympíuleikar ungmenna (YOG) fara fram í...
12

„Verð að hrósa framkvæmdaraðilum mótanna“

12.08.2025

 

Það er óhætt að segja að það hafi verið nóg um að vera í íslensku íþróttalífi um nýliðna helgi. Íslenskir knapar áttu sviðið í Sviss en HM íslenska hestins lauk í gær. Ísland vann 25 verðlaun á HM; 13 gull, 10 silfur og tvö brons. Ísland hampaði að auki liðabikarnum fyrir besta samanlagða árangur landsliðs. Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Hulinn frá Breiðstöðum unnu gullverðlaun í slaktaumatölti fullorðinna með nokkrum yfirburðum en Íslendingar hafa aldrei áður unnið þann titil. Þá vann Árni Björn Pálsson tölthornið eftirsótta á hryssunni Kastaníu frá Kvistum og Jón Ársæll Bergmann var sá íslenski keppandi sem hlaut flest gullverðlaun í íþróttakeppninni. Hann vann gæðingaskeið og fimmgang í ungmennaflokki auk þess að vera samanlagður sigurvegari í fimmgangsgreinum, þar sem lagður er saman árangur í töltgrein, fimmgangi og skeiðgrein. Svo eitthvað sé nefnt!

Á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði náði golfsumarið hápunktinum með Íslandsmótinu í golfi þar sem Dagbjartur Sigurbrandsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur og Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Golfklúbbnum Keili stóðu uppi sem Íslandsmeistarar eftir harða keppni. Úrslitin réðsut á lokaholunni hjá körlunum og umspil þurfti í kvennaflokki til að skera úr um sigurvegara.

Willum Þór Þórsson, forseti ÍSÍ, fylgdist með fyrsta keppnisdegi Íslandsmótsins í golfi áður en hann hélt svo til Sviss. „Ég verð að hrósa framkvæmdaraðilum beggja mótanna. Umgjörðin hjá Golfklúbbnum Keili á Hvaleyrinni var til algjörrar fyrirmyndar og gaman að sjá hversu margir fylgdust með okkar öflugu kylfingum. Golfíþróttin verður sífellt vinsælli hér á landi sem er frábært enda hefur golfið jákvæð áhrif á líkamlega, félagslega og andlega heilsu. Það var einnig mögnuð upplifun að fylgjast með okkar frábæru knöpum á HM og þar sá ég vel hvað hestaíþróttin er sameinandi. Íslenski hesturinn er svo alveg einstakur og sameinar fjölda þjóða á heimsmeistaramóti á erlendri grundu.“

Á meðal fleiri hápunkta frá liðinni helgi verður að minnast á ótrúlegt Íslandsmet Arnars Péturssonar úr Breiðabliki í 100 km hlaupi á Meistaramóti Íslands en Arnar hljóp á 6:45:16 klst, sem er meðalhraði upp á 4:03 mínútur fyrir hvern kílómetra. Þetta var 71. Íslandsmeistaratitill Arnars!

Myndir: Golfsamband Íslands, Landssamband hestamannafélaga og Frjálsíþróttasamband Íslands.

Myndir með frétt