Patrekur til liðs við Afreksmiðstöð Íslands

Patrekur Jóhannesson hefur verið ráðinn til starfa sem sérfræðingur hjá Afreksmiðstöð Íslands.
Áður hafði verið greint frá því að Patrekur kæmi til starfa sem svæðisfulltrúi á höfuðborgarsvæðinu en reynsla og þekking Patreks úr afreksíþróttaheiminum hér heima sem og erlendis mun nýtast enn betur innan Afreksmiðstöðvarinnar. Patrekur er öllum hnútum kunnugur innan íþróttahreyfingarinnar en hann á að baki 243 landsleiki í handknattleik ásamt því að hafa þjálfað landslið og félagslið, bæði hérlendis og erlendis. Patrekur er menntaður íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og var síðast íþrótta- og rekstrarstjóri Stjörnunnar í Garðabæ.
„Patrekur er með yfirgripsmikla reynslu og þekkingu úr heimi afreksíþrótta sem mun nýtast vel í Afreksmiðstöðinni. Ég er mjög ánægð með það að fá hann til liðs við okkur og hlakka til þess að vinna með honum að því að bæta umgjörð afreksíþrótta á Íslandi,” segir Kristín Birna Ólafsdóttir, afreksstjóri ÍSÍ, en áherslusvið Patreks verður meðal annars í tengslum við faglega umgjörð hópíþrótta. Patrekur kemur inn í öflugan hóp Afreksmiðstöðvarinnar en þar starfa einnig, auk Kristínar Birnu, þau Brynja Guðjónsdóttir, sérfræðingur, og Vésteinn Hafsteinsson, sem nú er búsettur í Svíþjóð en verður áfram ráðgjafi hjá Afreksmiðstöðinni.
Afreksmiðstöð Íslands er stjórnstöð afreksíþróttastarfs á Íslandi og faglegur vettvangur fyrir afreksfólk ólíkra íþrótta. Afreksmiðstöðin var formlega stofnuð í maí og vinnur hún náið með sérsamböndum ÍSÍ. Markmiðið er fyrst og fremst að byggja upp og styðja við íslenskt afreksíþróttafólk og gera þeim kleift að komast í hóp þeirra bestu á alþjóðlegum vettvangi. Á meðal næstu verkefna á vettvangi Afreksmiðstöðvarinnar er koma á fót launasjóði afreksíþróttafólks og þjálfara og undirbúningur fyrir Vetrarólympíuleikana í Milano Cortina 2026.
„Mér líst rosalega vel á þetta, fyrirkomulagið er gott og Kristín Birna er frábær fyrirliði. Vésteinn kom inn með krafti og nú þarf að fylgja þessu vel eftir og móta áfram,” segir Patrekur.