Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22.10.2026 - 28.11.2019

YOG 2026 - Dakar

Ólympíuleikar ungmenna (YOG) fara fram í...
30

Íþróttafjölskyldur í Skopje

29.07.2025

 

Á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Skopje sem lauk um nýliðna helgi keppti margt af okkar efnilegasta íþróttafólki sem vafalaust á framtíðina fyrir sér. Það er stundum sagt að eplið falli sjaldan langt frá eikinni en á hliðarlínunni og utan vallar í Skopje var öflugur hópur, þjálfara, flokkstjóra, foreldra og aðstoðarmanna, sem náði afar langt á íþróttasviðinu á sínum ferli.

Í þjálfarateymi drengjalandsliðsins í handbolta, sem vann gullverðlaun á leikunum, voru þeir Ásgeir Örn Hallgrímsson og Snorri Steinn Guðjónsson en báðir eru þeir á meðal leikreyndustu leikmanna íslenska karlalandsliðsins í handbolta frá upphafi. Ásgeir Örn lék 255 A-landsleiki og Snorri Steinn, núverandi landsliðsþjálfari karlalandsliðsins, lék 257 A-landsleiki. Sonur Snorra Steins, Bjarki Snorrason, var í drengjaliði Íslands í Skopje og Ásgeir Örn er aðalþjálfari liðsins.

Díana Guðjónsdóttir, fyrrverandi landsliðskona í handbolta og þjálfari kvennaliðs Hauka í úrvalsdeildinni, stýrði stúlknaliðinu til bronsverðlauna í Skopje en í liðinu er dóttir hennar, Ebba Guðríður Ægisdóttir. Ebba Guðríður kemur úr mikilli landsliðsfjölskyldu en móðuramma hennar, Sigríður Sigurðardóttir, var fyrst kvenna kjörin Íþróttamaður ársins árið 1964.

Það voru ekki bara handboltaforeldrar á hliðarlínunni í Skopje því Rúnar Hjálmarsson, yfirþjálfari frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss, fylgdi syni sínum, Hjálmari Vilhelm Rúnarssyni, eftir en Hjálmar Vilhelm náði frábærum árangri í tugþraut á mótinu. 

Fjölmargir foreldrar gerðu sér svo ferð til Skopje til að fylgjast með næstu kynslóð en í stúkunni mátti meðal annars finna Aron Kristjánsson, þjálfara karlalandsliðs Kúveits í handbolta, og Óskar Bjarna Óskarsson, aðstoðarlandsliðsþjálfara karlalandliðsins í handbolta. Sonur Arons, Freyr, var í drengjaliðinu í handbolta og Laufey dóttir Óskars var í stúlknaliðinu og var jafnframt fánaberi á setningarathöfninni. 

Myndir með frétt