Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22.10.2026 - 28.11.2019

YOG 2026 - Dakar

Ólympíuleikar ungmenna (YOG) fara fram í...
27

Sjötti og síðasti keppnisdagur í Skopje

26.07.2025

Síðasti keppnisdagurinn á EYOF í Skopje hófst á í tugþrautinni í frjálsíþróttum. Þetta var seinni dagur tugþrautar pilta en þar var Hjálmar Vilhelm Rúnarsson á meðal keppenda. Hann átti virkilega flottan fyrri dag í gær og fékk 3579 stig.

Dagurinn byrjaði heldur betur vel þegar Hjálmar hljóp 110 m grindahlaupið á 15,78 sek og bætti sig um tæp tuttugu sekúndubrot, og hlaut fyrir það 758 stig. Næst var komið að kringlukastinu og þar var Hjálmar með lengsta kast allra keppenda en hann kastaði 49,37 m, sem er hans næstbesta kast með 1,5 kg kringlunni og hlaut hann 857 stig. Í næstu grein var Hjálmar með enn eina persónulegu bætinguna þegar hann stökk 3,40 m í stangarstökkinu og þar hlaut hann 457 stig. Í spjótkastinu var lengsta kastið hans 50,17 m og þar hlaut hann 591 stig. Síðasta grein dagsins var svo 1500 m hlaupið og þar hljóp Hjálmar á 5:17,33 mín og hlaut 464 stig.

Hjálmar hlaut því í heildina 6706 stig og endaði hann í 8. sæti, en þess má geta að þetta er aðeins 27 stigum frá árangri hans á NM í þraut frá því um miðjan júní þar sem hann setti aldursflokkamet í flokki U18 pilta. Þetta var virkilega flott þraut hjá Hjálmari og frábær árangur, persónuleg bæting í fjórum greinum, sigur í tveimur greinum og mjög nálægt sínum besta árangri í þraut

Handknattleiksveislan hélt áfram og náðu U17 stúlkur bronsi þegar þær sigruðu Hollendinga og U17 strákar hrepptu gullverðlaun gegn Þjóðverjum. Báðir leikirnir voru hörkuspennandi og framtíðin skínandi björt fyrir handknattleikinn á Íslandi.

Lokahátíðin var haldin utandyra við Jane Sandanski íþróttaleikvanginn þar sem m.a. þátttakendum og sjálfboðaliðum var þakkað fyrir sína þátttöku og framlag. Kynnt var að næsta EYOF hátíð fari fram í Lignano á Ítalíu. Eftir það tók við frábær útiveisla þar sem þátttakendur nutu tónlistar og þeir sem vildu dönsuðu með. Bryndís Embla og Matthías Dagur voru fánaberar Íslands á lokahátíðinni

Fararstjórn ÍSÍ á hátínni þakkar öllum þátttakendum fyrir frábæra frammistöðu og ánægjulega keppni. Allir voru landi og þjóð til sóma. Íslenskir áhorfendur voru duglegir að hvetja okkar keppendur og voru til fyrirmyndar eins og alltaf.
Þá hafa allir keppendur lokið keppni og óskar ÍSÍ þeim öllum til hamingju með sinn árangur.

Myndir með frétt