Fjórði keppnisdagur í SKopje
.jpg?proc=400x400)
Á þessum sólríka og heita degi í Skopje var keppt í frjálsum íþróttum, (tugþraut og spjótkasti), júdó og handknattleik.
Tugþrautin hófst snemma í morgun á 100 m hlaupi og þar hljóp Hjálmar á 11,51 sek og hlaut fyrir það 750 stig. Næsta grein var langstökk og þar stökk Hjálmar 5,94 m og hlaut 574. Hjálmar gerði sér lítið fyrir og var með lengsta kastið í kúluvarpskeppninni þegar hann kastaði 15,83 m, og fékk þar 841 stig, og var aðeins 6 cm frá sínum besta árangri. Í var hann með 3 hæsta stökkið þegar hann stökk 1,97 m, sem er bæting um þrjá cm og hann nálgast tvo metrana óðum, og gefur sá árangur 776 stig. Virkilega vel gert í hástökkinu hjá Hjálmari. Lokagrein dagsins í tugþrautinni var svo 400 m hlaupið og þar var Hjálmar með aðra persónulega bætingu þegar hann kom í mark á 54,05 sek og hlaut 638 stig, frábær endir á mjög góðum keppnisdegi. Eftir fyrri daginn er hann því með 3579 stig. Gaman verður að fylgjast með honum á morgun.
Spjótkast stúlkna fór fram seinni partinn og þar kastaði Bryndís Embla 39,80 m og hafnaði í 14. sæti. Flott frumraun hjá þessum unga og mjög svo efnilega spjótkastara á alþjóðlega keppnissviðinu.
Viktor (+93) keppti í júdó við Daniil Lukashevich frá Hvíta-Rússlandi. Viktor tapaði viðureigninni.
Í undanúrslitum í handknattleik töpuðu stelpurnar í U17 með fjórum mörkum, 28-24, gegn Þýskalandi. Strákarnir í U17 fóru með átta marka sigur á Ungverja, 40-32. Á morgun er síðasti keppnisdagur og þá spila stelpurnar um bronsið kl. 12:15 og úrslitaleikurinn hjá strákunum hefst kl. 14:30. Hægt er að horfa á alla leiki eða keppnir í beinu streymi á EOCTV.org eða ANOC TV
Landslið Íslands í áhaldafimleikum hefur lokið keppni á EYOF og hélt heim til Íslands í dag. Keppnin var haldin í Osijek í Króatíu. Allir keppendur stóðu sig vel og eru sér og landi sínu til mikils sóma.
Hátíð fyrir ungmenni, eins og EYOF, gefur keppendum viðamikla reynslu sem nýtist þeim áfram í sínum verkefnum. Líka er mikilvægt að hafa gaman og njóta þess að taka þátt í öllum því sem hátíðin býður upp á.
Dagskrá morgundagsins
09:00 Grindahlaup
09:50 Kringlukast
11:45 Stangastökk
12:15, 3-4 sæti, Ísland - Holland (KVK)
14:30 Úrslitaleikur, Ísland - Þýskaland (KK)
16:00 Spjótkast
17:30 1500m hlaup