Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22.10.2026 - 28.11.2019

YOG 2026 - Dakar

Ólympíuleikar ungmenna (YOG) fara fram í...
5

Forseti og framkvæmdastjóri ÍSÍ hittu nýkjörinn forseta Alþjóðaólympíunefndarinnar

04.07.2025

 

Forseti ÍSÍ, Willum Þór Þórsson, heimsótti í vikunni Lausanne í Sviss, ásamt framkvæmdastjóra ÍSÍ, Andra Stefánssyni. Í Lausanne eru höfuðstöðvar Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) og fjölmargra annara alþjóðlegra íþróttasamtaka og er hún er því jafnan kölluð Ólympíuborgin. Hjá IOC fengu þeir góða kynningu á starfsemi samtakanna, stjórnskipulagi, áskorunum, markaðsmálum og þeirri þjónustu sem IOC veitir til Ólympíunefnda víða um heim. Umfang Ólympíuhreyfingarinnar fer sífellt stækkandi og er starfsemi IOC mjög fjölbreytt en 206 Ólympíunefndir eru starfandi í heiminum. Við komuna til IOC var búið að draga íslenska fánann að húni og var vel tekið á móti fulltrúum ÍSÍ.

Nýverið urðu breytingar á forystu IOC er Kirsty Coventry frá Zimbabwe tók við sem forseti af Thomas Bach sem hafði gegnt forsetaembættinu frá því í september 2013. Forsetaskiptin urðu á sjálfan Ólympíudaginn þann 23. júní sl. og fóru fram í höfuðstöðvum IOC. Kirsty Coventry er fyrsta konan sem gegnir þessu veigamikla hlutverki en hún á sjálf merkilega íþróttasögu. Af þeim átta verðlaunum sem Zimbabwe hefur unnið á Ólympíuleikum á Coventry sjö þeirra. Þegar hún hætti keppni árið 2016 hafði hún farið á fimm Ólympíuleika og jafnað met yfir flestar medalíur í einstaklingskeppni kvenna.

Það vildi svo til að nýkjörinn forseti IOC var í höfuðstöðvunum í Lausanne sama dag og þeir Willum og Andri og heilsaði hún upp á íslensku fulltrúana. Coventry og Willum eiga ýmislegt sameiginlegt en þau hafa bæði starfað sem ráðherrar í sínu landi á síðustu árum og eru nýtekin við embætti sem forsetar innan Ólympíuhreyfingarinnar. 

Auk þess að heimsækja höfuðstöðvar IOC í Lausanne voru Willum og Andri viðstaddir fyrsta leik íslenska kvennalandsliðsins á EM í Sviss og þá gafst einnig tími til að heimsækja höfuðstöðvar Heimssambands Ólympíunefnda (ANOC) sem einnig eru staðsettar í Lausanne. 

Tenglar:

Alþjóðaólympíunefndin (IOC) https://www.olympics.com/en/

Heimssamband Ólympiunefnda (ANOC) https://www.anocolympic.org/

Evrópusamband Ólympíunefnda (EOC) https://www.eurolympic.org/

Myndir með frétt