Hreyfing alla ævi - brúum bilið

Það hefur jákvæð áhrif á heilsu og líðan allra hópa, á öllum æviskeiðum, að takmarka kyrrsetu og stunda reglulega hreyfingu.
Á efri árum er sérstaklega mikilvægt að varðveita vöðvastyrk og stunda styrktar- og jafnvægisþjálfun. Með reglulegri hreyfingu við hæfi má hægja á áhrifum og einkennum öldrunar og viðhalda getunni til að lifa lengur sjálfstæðu lífi.
Inni á vefslóðinni Hreyfing fyrir 60+ | Ísland.is er nú hægt að nálgast upplýsingar um hreyfingu og tómstundir fyrir 60 ára og eldri um allt land.
Í dag má sjá framboð hreyfingar og tómstunda fyrir þennan aldurshóp í tæplega 40 sveitarfélögum og stefnt er á að fleiri bætist við á næstu misserum.
Að verkefninu standa fulltrúar Bjarts lífsstíls, Ásta Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri hjá Landssambandi eldri borgara og Margrét Regína Grétarsdóttir, verkefnastjóri hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, ásamt Birnu Sigurðardóttur, sérfræðingi frá Félags- og húsnæðismálaráðuneytinu, Örnu Steinarsdóttur, fagstjóra sjúkraþjálfunarþjónustu hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og Hildi Guðnýju Ásgeirsdóttur, verkefnastjóra á lýðheilsusviði hjá Embætti landlæknis.
Verkefnið er hluti aðgerðaráætlunarinnar Gott að eldast sem heyrir undir Félags- og húsnæðismálaráðuneytið og Heilbrigðisráðuneytið. Hópurinn hefur unnið að þessu verkefni frá árinu 2024. Markmiðið er að allar upplýsingar um framboð heilsueflandi úrræða á landsvísu verði aðgengilegar á einum stað þar sem bilið er brúað milli þeirra sem leita eftir þjónustu og þeirra sem standa fyrir henni í hverju sveitarfélagi fyrir sig.
Verkefnastjórar Bjarts lífsstíls hafa átt gott samstarf við fulltrúa sveitarfélaga um að koma upplýsingum á framfæri á nýju svæði inni á island.is.
Ávinningurinn er margþættur: eldra fólk getur fundið hreyfingu og tómstundir við hæfi í sínu nærumhverfi, fagaðilar geta vísað í viðeigandi úrræði og þeir sem sinna hvers kyns úrræði koma sínum upplýsingum á framfæri.