„Ég veit að ÍSÍ verður í góðum höndum“

Lárus Blöndal lét af störfum sem forseti ÍSÍ á 77. íþróttaþingi ÍSÍ sem fram fór 16. og 17. maí 2025. Lárus var við þessi tímamót gerður að Heiðursforseta ÍSÍ.
Við setningu 77. íþróttaþings ÍSÍ ávarpaði Lárus þingið sem forseti í síðasta sinn.
Ávarp Lárusar Blöndal, fráfarandi forseta ÍSÍ, á 77. íþróttaþingi.
Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, Guðmundur Ingi Kristinsson, formaður UMFÍ, Jóhann Ingimundarson, Heiðursfélagar ÍSÍ, góðir þingfulltrúar og aðrir gestir,
Ég býð ykkur velkomin til 77. Íþróttaþings ÍSÍ. Frá síðasta íþróttaþingi hefur okkar ástkæri Heiðursforseti ÍSÍ, Ellert B. Schram fallið frá. Ellert var gríðarlega mikill og góður leiðtogi sem leiddi íþróttahreyfinguna til mikilla framfara þann tíma sem hann var í embætti. Hann hafði mikla mannkosti og var afar farsæll í störfum sínum í þágu íþrótta í landinu. Hans er sárt saknað úr starfinu enda litríkur einstaklingur, skarpur og skemmtilegur. Allir sem hann þekktu vel búa yfir sterkum minningum um Ellert, sem munu lifa með okkur áfram líkt og vörðurnar um störf hans í hreyfingunni. Tveir Heiðursfélagar féllu einnig frá á milli þinga, þeir Jón Gestur Viggósson og Hörður Gunnarsson. Báðir áttu þeir langan og farsælan feril innan íþróttahreyfingarinnar og hlutu æðstu viðurkenningar fyrir störf sín. Þeirra verður einnig sárt saknað úr hreyfingunni.
Fyrir þinginu liggja 29 tillögur um hin ýmsu hagsmunamál hreyfingarinnar. Lagðar eru til umtalsverðar breytingar á lögum sambandsins sem snúa m.a. að því að bæta stjórnarhætti. Eftir því sem okkur fjölgar í íþróttahreyfingunni þeim mun meira reynir á skipulag og regluverk og ákall er úr ýmsum áttum um skýrari reglur og heimildir. Hreyfing sem telur um 1000 einingar í margskiptu skipulagi þarf gott utanumhald og eftirfylgni. Það var því ekki að ástæðulausu sem ráðinn var inn lögfræðingur á stjórnsýslusvið ÍSÍ í fullt starf á síðasta ári. Sviðið vinnur hörðum höndum að ýmsum umbótum í regluverki ÍSÍ og hefur leitt undirbúning að tillögum til lagabreytinga sem lagðar eru nú fyrir íþróttaþing. Eru þær því mjög umfangsmiklar í þetta skiptið.
Húsnæði ÍSÍ í Laugardalnum er eign allrar íþróttahreyfingarinnar. Húsnæðisþörf sambandsaðila hefur aukist talsvert undanfarin ár, m.a. vegna fjölgunar sérsambanda og aukinnar starfsemi ýmissa sambandsaðila. Þá liggur einnig fyrir að fara verður í dýrar viðhaldsframkvæmdir ef ekki á illa að fara fyrir fasteignunum. Enn er ótalin þörfin fyrir stækkun húsakostsins til að mæta aukinni starfsemi íþróttahreyfingarinnar. Heildarkostnaðurinn við þessi verkefni hleypur samtals á hundruðum milljóna króna. Fyrir þinginu liggur tillaga um að ÍSÍ fái helming af þeirri aukagreiðslum sem Íslensk getspá kann að greiða út til ÍSÍ fram að næsta íþróttaþingi 2027. Samskonar tillaga var samþykkt á síðasta íþróttaþingi. Í greinargerð með tillögunni er gerð ítarleg grein fyrir kostnaðaráætlun fyrir nokkur tiltekin verkefni sem eru mjög brýn. Ég ítreka að það er mjög mikilvægt að við getum haldið húsunum okkar við og aðlagað að starfsemi okkar inn í framtíðina.
Svæðisstöðvarnar mikilvægar
Á síðasta ári settu ÍSÍ og UMFÍ á fót átta svæðisstöðvar með stuðningi frá mennta- og barnamálaráðuneytinu. Tillögur um stofnun svæðisstöðvanna voru samþykktar á íþróttaþingi ÍSÍ vorið 2023 og á þingi UMFÍ haustið 2023. Samtökin undirrituðu samning við ráðuneytið 1. desember 2023 um eflingu íþróttastarfs á landsvísu með því að koma á fót svæðisstöðvum og Hvatasjóði. Svæðisstöðvunum er ætlað að styðja við íþróttahéruð landsins við innleiðingu á stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum auk þess að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi með sérstaka áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Bæði ráðuneytið og íþróttahreyfingin hafa miklar væntingar til starfsemi þessara svæðisskrifstofa en leitast er við að efla samskipti við samfélögin á viðkomandi svæðum og þá ekki síst sveitarfélögin og skólana. Þá sjáum við fyrir okkur að svæðaskrifstofunnar verði mikilvægar til að tengja efnilegt íþróttafólk allt í kring um landið við afrekstarf sérsambandanna. Jafnframt er það framtíðarsýn að sem flestir hafi tækifæri til að stunda íþróttir á því sviði sem þeir kjósa, hvort heldur til ánægju, heilsubótar eða með afreksárangri að markmiði.
Eins og fram kom hér á undan þá hefur samstarf ÍSÍ og UMFÍ aukist mjög á síðustu árum. Í tillögu sem liggur nú fyrir íþróttaþingi er lagt til að samstarf þessara aðila verði eflt enn frekar þannig að samtökin vinni saman á sviðum fræðslu, almenningsíþrótta, lýðheilsu og sjálfbærnismála. Unnið skal að þessum sameiginlegu málaflokkum og áherslum þvert á bæði samtök þar sem báðir aðilar leggja til mannauð og fjármagn og verkefni og verksvið verði skilgreind í samstarfssamningi á milli aðila. Með þessu mun umgjörð íþróttastarfsins batna til muna með betri nýtingu fjármagns og mannauðs. Eru þetta einnig viðbrögð við áskorunum bæði frá íþróttahreyfingunni og stjórnvöldum. Þessi tillaga er unnin sameiginlega af ÍSÍ og UMFÍ og er eðlilegt framhald af núverandi samstarfi þessara samtaka.
Stofnun Afreksmiðstöðvar Íslands
Í byrjun árs 2023 gerðu ÍSÍ og mennta- og barnamálaráðherra samkomulag m.a. um uppbyggingu afreksíþróttastarfs á Íslandi með það að markmiði að íslenskt afreksíþróttafólk standi jafnfætis þeim bestu í okkar samburðarlöndum. Starfshópur mennta- og barnamálaráðuneytis, undir forystu Vésteins Hafsteinssonar, hefur unnið gríðarlega gott starf á síðustu tveimur árum. Hópurinn skilaði skýrslu og tillögum um það hvernig bæta má umgjörð afreksíþróttastarfs og á þeim tillögum er nú byggt. Með því aukna fjármagni sem okkur er ætlað í fjárlögum fyrir árið 2025 þá höfum við hafið fyrir alvöru þessa vegferð. Augljósasta birtingarmynd þess er að sjálfsögðu formleg opnun Afreksmiðstöðvar Íslands þann 5. maí sl. Er það risastórt skref í þeirri vegferð sem við erum á.
En hvað er Afreksmiðstöð Íslands? Samkvæmt skilgreiningum Afreksmiðstöðvarinnar, skammstafað AMÍ þá er hún stjórnstöð afreksíþróttastarfs á Íslandi, faglegur vettvangur fyrir afreksfólk ólíkra íþrótta sem hefur möguleika á að verða sigurvegarar á heimsmælikvarða. Starf AMÍ verður í náinni samvinnu við sérsambönd og íþróttafélög landsins, framhaldsskóla, háskóla og vísindasamfélag, sem og sérfræðinga í íþrótta- og heilsufræðum. Tilgangur Afreksmiðstöðvarinnar er að byggja upp og styðja við afreksíþróttafólk og skapa þeim aðstæður til að komast í hóp þeirra bestu á alþjóðlegum vettvangi. Sú vinna hefst snemma og hún hefst hér heima. Efnilegt íþróttafólk og lið, sem eru líkleg til að ná árangri, eru valin eftir ákveðnum viðmiðum. Með öflugum stuðningi við afreksíþróttafólkið verða um leið til betri þjálfarar, dómarar og leiðtogar.
Spurningunni „hvað þarf til að vinna gullið?“ svarar Afreksmiðstöðin þannig: Því fleira afreksfólk sem við eignumst, því sjálfsagðara verður það, því hefð og saga skiptir máli. Með því að skapa bestu mögulegu umgjörð í kringum íþróttafólkið okkar aukast líkurnar á að komast í fremstu röð. AMÍ vinnur með félögum og sérsamböndum að markvissri afreksþjálfun út frá nýjustu rannsóknum, af vel menntuðu kunnáttufólki með alþjóðlega reynslu. Félagslegt umhverfi, andleg heilsa, tæknileg geta og líkamlegt atgervi er skoðað. Starfinu er stýrt og það stutt af AMÍ í gegnum 8 fagsvið en þau eru: mælingar og stöðumat, líkamsþjálfun, meðhöndlun og heilsa, hæfileikamótun, sálfræði og íþróttir, íþróttanæring, íþróttafólk og ferill og íþróttaþjálfarinn.
Og hver er síðan ávinningurinn? Fátt sameinar þjóðina betur en þátttaka og velgengni í íþróttum á alþjóðlega sviðinu. Góður árangur skapar landi og þjóð aukna umfjöllun og landkynningu með tilheyrandi hagvaxtaráhrifum. Öflugar fyrirmyndir og leiðtogar hafa ekki aðeins mikið forvarnargildi fyrir börn og ungmenni, heldur eru þær einnig hvatning fyrir almenning. Öll tölfræði bendir til að starf sem þetta efli velferð barna.
Ólympíuleikarnir undirstrika vinsældir íþrótta
Árið 2024 var Ólympíuár og Ísland sendi fimm vaska keppendur til Ólympíuleikanna sem að þessu sinni fóru fram í París. Sömuleiðis kepptu fimm Íslendingar á Paralympics sem fór fram í kjölfarið. Stóðu þau sig öll með prýði og voru þjóðinni til mikils sóma. Ólympíuleikar eru mikil íþróttaveisla og kynda vel undir íþróttaáhuga um allan heim. Maður fyllist alltaf stolti að sjá íslenska keppendur á stóra sviðinu og skynjar hversu mikið er lagt undir í til að komast á þennan stað. Ólympíuleikarnir í París slógu öll met yfir áhorf og samfélagsmiðlaumfjöllun. Um 5 milljarðar manna um allan heim fylgdust með leikunum á einhvern hátt sem eru 84% af öllum þeim sem gátu með einhverjum hætti horft á leikanna. Um 75% íslensku þjóðarinnar horfðu á Ólympíuleikana þegar litið er á uppsafnað áhorf. Þetta segir sína sögu um vinsældir íþrótta í heiminum og mikilvægi þeirra í daglegu lífi fólks.
Ég vil þakka fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, fyrir gott samstarf á undanförnum árum og þann áhuga og velvilja sem hann hefur sýnt íþróttastarfinu. Sérstaklega vil ég þakka honum og núverandi ráðherra Guðmundi Inga Kristinssyni gríðarlega góðan stuðning við íþróttahreyfinguna og að gera okkur kleift að gera drauminn um Afreksmiðstöð fyrir afreksfólkið okkar að veruleika. Það var risastór viðburður í sögu íslenskra íþrótta þegar afreksmiðstöðin var formlega opnuð nú í byrjun maí. Ég þakka einnig forseta Íslands og verndara íþróttahreyfingarinnar, frú Höllu Tómasdóttur, hennar störf fyrir íþróttahreyfinguna en í öllum okkar samskiptum þá hefur geislað af henni áhuginn á íþróttastarfinu og væntum við mikils af samstarfinu við hana í framtíðinni. Ég vil einnig þakka Ólympíufjölskyldunni fyrir stuðninginn undanfarin ár en hann hefur skipt miklu máli í okkar starfsemi. Fyrirtækin sem nú mynda Ólympíufjölskylduna eru Íslensk getspá, Toyota og Icelandair. Ég vil líka þakka samstjórnarfólki mínu og starfsfólki Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands kærlega fyrir frábært samstarf á undanförnum árum þar sem hvergi hefur borið skugga á. Sérstaklega vil ég þakka framkvæmdastjórunum í minni embættistíð, þeim Líneyju Rut Halldórsdóttur og Andra Stefánssyni fyrir mjög gott samstarf.
Tímamót
Á íþróttaþingi er samankominn sá hópur fólks sem fer fyrir því öfluga starfi sem íþróttahreyfingin stendur fyrir um allt land, í félögum, íþróttahéruðum, sérsamböndum og í hinum ýmsu verkefnum sem hreyfingin stendur fyrir. Þið eruð fulltrúar fyrir barna og unglingastarfið, afreksstarfið, almenningsíþróttastarfið, alþjóðastarfið og ekki síst félagsstarfið sem gerir íþróttahreyfinguna að lang öflugustu og fjölmennustu fjöldahreyfingu á Íslandi. Með miklu þakklæti býð ég þennan öfluga hóp velkominn til íþróttaþings.
Það eru sannarlega tímamót fyrir mig að standa hér í dag og vita að þetta er mitt lokaávarp sem forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, eftir tæp tuttug og þrjú ár í forsvari, þar af tólf sem forseti, sjö sem varaforseti og þrjú ár sem formaður afrekssjóðs. Ég lít til baka með miklu þakklæti og líka nokkru stolti. Þetta hafa verið ótrúlega lærdómsrík, gefandi og viðburðarík ár. Ég hef fengið að fylgjast með dugnaði og seiglu íslenska íþróttafólksins í keppni hér heima og á ýmsum leikum út um allan heim; allt frá Kína til Rússlands, Brasilíu til Bretlands og svo á þeim allra furðulegustu; Ólympíuleikunum í Tókýó og í Peking í miðjum heimsfaraldri, með nánast engum áhorfendum en endalausum covidprófum, hitamælingum og grímuskyldu.
Á tíma mínum í forystu ÍSÍ höfum við staðið að fjölmörgum stórum verkefnum og tekið þátt í ótrúlegum gleðistundum á íþróttasviðinu eins og þegar Ísland sló England út úr EM karla í fótbolta í Frakklandi 2016 eða þegar Guðbjörg Jóna vann gull í 200 metra hlaupi á Óympíuleikum ungmenna í Buenos Aires 2018, nú eða þegar Eygló Fanndal Sturludóttir varð fyrsti Íslendingurinn til að verða Evrópumeistari í fullorðinsflokki í Ólympískum lyftingum á EM í Moldavíu fyrr á þessu ári. En við höfum einnig staðið frammi fyrir áskorunum sem við gátum ekki séð fyrir eins covid og allt sem þeim tíma fylgdi, covid tímabilið sýndi hins vegar getu íþróttahreyfingarinnar til að takast á við risavaxin vandamál og leysa úr þeim. Eftir á að hyggja þá er það með ólíkindum að við náðum að koma standandi út úr þessum hremmingum. En þar nutum við líka góðs stuðnings stjórnvalda og mikillar samstöðu innan íþróttahreyfingarinnar.
Ég verð að segja það að ég er sérstaklega ánægður með mörg mál sem ég hef brunnið fyrir innan íþróttahreyfingarinnar - og þar sem má nú sjá árangur áralangrar vinnu.
Eitt þessarar mála eru afreksíþróttir og staða afreksfólksins okkar. Fyrir nokkrum árum var alls ekki sjálfgefið að afreksíþróttir fengu þann stuðning sem þær áttu skilið en 400 milljónir kr. samningur við stjórnvöld í júlí 2016 breytti þar mjög miklu. Í ár koma síðan yfir 600 milljónir kr. inn í afreksmálin og þá förum við að sjá alvöru árangur. Að sjá framlag ríkisins til afreksmála hækka úr nokkrum tugum milljóna upp í á annan milljarð króna er ekki bara töluleg breyting heldur viðurkenning á því sem við hér öll vitum; að afreksíþróttir skipta gríðarlega miklu máli og þurfa öflugan stuðning. Afreksmiðstöð Íslands er kóróna þessarar vegferðar og ekki síður verður launasjóður þjálfara og íþróttafólks sem settur verður á laggirnar mikilvægur og eflaust leikbreytir fyrir íþróttafólkið okkar. Þetta hefur verið langhlaup en fagleg vinna okkar í íþróttahreyfingunni og árangursríkt samstarf við stjórnvöld hefur komið þessu mikilvæga máli yfir marklínuna. Við eigum svo sannarlega von á frábæru afreksíþróttastarfi Íslendinga á komandi árum en við þurfum að samt gera enn betur ef við ætlum að standa jafnfætis því íþróttafólki sem við bestan aðbúnað búa. Ég vil þakka öllum þeim sem ég hef fengið að starfa með í gegnum tíðina, bæði innan ÍSÍ og í hreyfingunni allri fyrir samstarfið og ekki síst ykkar vinnu. Það er ekki hægt að telja ykkur öll upp en þið megið vita að framlag ykkar hefur skipt öllu máli.
Ég er bjartsýnn á framtíð íþróttanna á Íslandi. Ég veit að íslensk íþróttahreyfing á eftir að blómstra. Innan hennar vébanda eru íþróttamenn, þjálfarar, starfsfólk og sjálfboðaliðar sem vilja hag íþróttanna sem mestan og fara langt hver á sínum vettvangi á „íslensku geðveikinni“ sem svo oft er vísað til og við vitum öll hvernig virkar. Ég vil nota þetta tækifæri til að óska þeim sem nær kjöri til forseta ÍSÍ á þinginu heilla í störfum sínum og einnig nýrri stjórn ÍSÍ. Ég veit að ÍSÍ verður í góðum höndum. Þá veit ég að frábært starfsfólk ÍSÍ mun áfram standa vaktina af sama áhuga og árvekni og hingað til.
Kæru félagar og vinir, takk fyrir samfylgdina, takk fyrir traustið og takk fyrir samveruna á fundum, íþróttamótum, leikjum og ferðalögum. Ég mun eflaust fá einhver fráhvarfseinkenni á næstu vikum en mun vinna örugglega vinna mig út úr þeim.
Takk fyrir mig og áfram Ísland.