Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

6

Kynning á hugmyndafræði 5C fyrir sérsambönd

06.05.2025

Í morgun hélt Daði Rafnsson kynningu á hugmyndafræði 5C fyrir sérsambönd, en kynningin fór fram í C-sal Íþróttamiðstöðvarinnar. Hugmyndafræði 5C snýst um að þjálfa fimm þætti í sálrænni og félagslegri færni barna og unglinga í íþróttum eins og þá líkamlegu. Þessir þættir eru skuldbinding, samskipti, sjálfstraust, sjálfsagi og einbeiting. Þetta eru hin svokölluð fimm C (The 5C´s), sem var upphaflega þróað af íþróttasálfræðingnum Dr. Chris Harwood.

Nánar um C-in fimm:

Commitment (Skuldbinding):
Vilji og þrautseigja til að mæta á æfingar, leggja sig fram og vinna að markmiðum sínum.

Communication (Samskipti):
Hæfileikinn til að eiga í árangursríkum samskiptum við þjálfara, liðsfélaga og aðra – bæði innan og utan vallar.

Confidence (Sjálfstraust):
Trú á eigin getu til að ná árangri, takast á við áskoranir og bæta sig.

Control (Sjálfsagi):
Færni til að stjórna tilfinningum, kvíða og streitu, sérstaklega í krefjandi aðstæðum.

Concentration (Einbeiting):
Getan til að halda athyglinni á réttum hlutum í keppni og æfingum, þrátt fyrir truflanir eða álag.

Þjálfun í kringum 5C-in getur verið bæði formleg og óformleg, með æfingum, umræðum og endurgjöf, og hefur reynst árangursrík til að auka ekki aðeins íþróttalegan árangur heldur líka vellíðan og félagslega færni.

Verkefni 5C hafa undanfarin ár rutt sér til rúms í íslensku íþróttalífi. Einstakir þjálfarar og félög hafa sótt námskeið á vegum ÍSÍ og nokkurra sérsambanda. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Knattspyrnusamband Íslands, Fimleikasamband Íslands, Loughborough háskóli og Nottingham Trent háskólinn unnu saman að stóru Erasmus + verkefni sem miðaði að því að kanna innleiðingu 5C í íslensk íþróttafélög og gera aðferðafræðina aðgengilega fyrir áhugasama einstaklinga, samtök og félög. 

Í framhaldi af þessari kynningu stendur til að bjóða íþróttafélögum og sérsamböndum upp á námskeið fyrir þjálfara, iðkendur, foreldra og stjórnendur. Námskeiðin verða auglýst nánar síðar. Á heimasíðu 5C má finna nánari upplýsingar um verkefnið.  

Myndir með frétt