Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

6

Opnun Afreksmiðstöðvar Íslands

05.05.2025

 

Afreksmiðstöð Íslands (AMÍ) var formlega opnuð í anddyri Laugardalshallar í dag, 5. maí. Kristín Birna Ólafsdóttir verður nýr afreksstjóri ÍSÍ og tekur við af Vésteini Hafsteinssyni, sem áfram verður ráðgjafi í Afreksmiðstöðinni.

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, Vésteinn Hafsteinsson og Kristín Birna Ólafsdóttir ávörpuðu samkomuna og að lokum fór afreksíþróttafólkið Eygló Fanndal Sturludóttir, lyftingakona, og Valgarð Reinhardsson, fimleikamaður yfir mikilvægi þess að fá faglegan og fjárhagslegan stuðning til þess að ná langt.

Tilgangur AMÍ er að byggja upp og styðja við afreksíþróttafólk og skapa þeim aðstæður til komast í hóp þeirra bestu á alþjóðlegum vettvangi. Sú vinna hefst snemma og hún hefst hér heima. Efnilegt íþróttafólk og lið, líkleg til að ná árangri, eru valin eftir ákveðnum viðmiðum. Með öflugum stuðningi við afreksíþróttafólkið verða um leið til betri þjálfarar, dómarar og leiðtogar.

Afreksmiðstöð Íslands er stjórnstöð afreksíþróttastarfs á Íslandi. Faglegur vettvangur fyrir afreksfólk ólíkra íþrótta sem hefur möguleika á að verða sigurvegarar á heimsmælikvarða. Starf AMÍ verður í náinni samvinnu við sérsambönd og íþróttafélög landsins, framhaldsskóla, háskóla og vísindasamfélag sem og sérfræðinga í íþrótta- og heilsufræðum.

Heimasíða Afreksmiðstöðvar Íslands. 

Ljósmyndir: Jón Aðalsteinn Bergveinsson/UMFÍ

Myndir með frétt