Fram fær viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ
.jpg?proc=400x400)
Knattspyrnufélagið Fram fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á aðalfundi félagsins í veislusal Fram mánudaginn 28. apríl síðastliðinn. Veittar voru fimm viðurkenningar; til aðalstjórnar, knattspyrnudeildar, handknattleiksdeildar, blakdeildar og taekwondodeildar. Það var Hafsteinn Pálsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ, og formaður heiðursnefndar, sem afhenti viðurkenningarnar fyrir hönd ÍSÍ.
„Það er mikil ánægja að taka á móti viðurkenningu ÍSÍ sem Fyrirmyndarfélag. Hún speglar þá miklu og góðu vinnu sem hefur átt sér stað innan félagsins – bæði af starfsfólki, sjálfboðaliðum og iðkendum. Við hjá Fram leggjum metnað í að skapa faglegt, jákvætt og öflugt umhverfi fyrir öll sem starfa hjá félaginu og þessi viðurkenning gefur okkur aukinn kraft til að halda áfram á þeirri braut“, sagði Sigríður Elín Guðlaugsdóttir formaður knattspyrnufélagsins Fram af þessu tilefni.
Á myndinni eru frá vinstri: Sigríður Elín Guðlaugsdóttir formaður aðalstjórnar Fram, Hörður Birgisson blakdeild, Rudolf Konráð Rúnarsson taekwondodeild, Axel Arnar Finnbjörnsson knattspyrnudeild, Gísli Freyr Valdórsson handknattleiksdeild, Þór Björnsson íþróttastjóri Fram og Hafsteinn Pálsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ.
Fyrirmyndarfélag ÍSÍ er gæðaverkefni íþrótta-hreyfingarinnar er snýr að íþróttastarfi. Íþróttafélög og deildir innan félaga geta sótt um viðurkenningu til ÍSÍ að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þegar viðurkenning hefur verið veitt gildir hún í fjögur ár.
Viðurkenningunni fylgja ýmsir kostir. Handhafar hennar hafa samþykkt stefnur og viðbragðsáætlanir í flestum þeim málum er snúa að íþróttastarfi. Fjölbreytt markmið með starfinu liggja fyrir og það eitt og sér eykur líkur á því að allir sem koma að starfinu með einum eða öðrum hætti rói í sömu átt, félaginu til heilla og framfara. Siðareglur liggja fyrir, persónuverndarstefna er klár auk stefna í fræðslu- og forvarnarmálum, jafnréttismálum, umhverfismálum og félagsmálum svo eitthvað sé nefnt. Benda má á að sveitarfélög gera í auknum mæli kröfur til íþróttafélaga um að hafa þessa viðurkenningu frá ÍSÍ.
ÍSÍ hvetur íþróttafélög, stór sem smá, til að sækja um viðurkenninguna og stuðla þannig að faglegra starfi í hreyfingunni.
Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér.