Heiðranir á sambandsþingi ÍF
Sambandsþing Íþróttasambands fatlaðra fór fram í Laugardalshöll laugardaginn 26. apríl. Á þinginu var Þórður Árni Hjaltested endurkjörinn formaður ÍF til næstu tveggja ára og þá voru tvö sæmd gullmerki ÍSÍ.
Þingið samþykkti nýja afreksstefnu ÍF fyrir tímabilið 2024-2032, sem og, reglugerð um skiptingu lottótekna og fjárhagsáætlun næstu ára. Ný stjórn var kjörin og tók Theodór Karlsson sæti í varastjórn í fyrsta sinn.
Hafsteinn Pálsson, formaður heiðursnefndar ÍSÍ, og Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ sæmdu þau Ástu Katrínu Helgadóttur og Helga Þór Gunnarsson gullmerki ÍSÍ.
Ásta Katrín Helgadóttir, íþróttakennari
Ásta Katrín hefur stsarfað sem sjálfboðaliði að íþróttamálum fatlaðra frá 1988 sem sérfræðingur í frjálsíþróttum. Hún situr í varastjórn ÍF og hefur verið þjálfari í frjálsum á Special Olympics fá sumarleikunum 1990. Ásta Kata er með yfirdómararéttindi í frjálsíþróttum fatlaðra frá IPC, alþjóða Paralympic-hreyfingunni.
Helgi Þór Gunnarsson, borðtennisþjálfari
Helgi Þór hefur verið tengdur borðtennisþjálfun í yfir 30 ár fyrir fatlaða, bæði sem félagsþjálfari og landsliðsþjálfari, og sem umsjónarmaður íþróttarinnar innan ÍF. Helgi Þór hefur einni verið virkur leiðtogi innan borðtennishreyfingarinnar.