„Erum öll að vinna að sama markmiðinu“

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir lét um síðustu helgi af störfum sem formaður Ungmennafélagsins Úlfljóts eftir níu ár í formannsembættinu. Hún hefur þó ekki sagt skilið við íþróttahreyfinguna því Jóhanna starfar nú sem svæðisfulltrúi á Austurlandi ásamt Erlu Gunnlaugsdóttur.
„Ég er fædd og uppalin á Höfn í Hornafirði og æfði á yngri árum allar íþróttir sem í boði voru hjá Ungmennafélaginu Sindra, þó áherslan hefði verið á fótbolta og fimleika. Ég þjálfaði frjálsar í nokkur ár þegar ég var í kringum tvítugt og eftir að ég eignaðist sjálf börn, og þau komust á þann aldur að byrja að æfa, hef ég þó nokkuð oft verið tengill og formaður yngri flokka í körfubolta. Ég kom inn í stjórn USÚ árið 2015 og var eitt ár sem ritari en tók svo við formennskunni 2016 og var formaður allt þar til núna á nýliðnu þingi. Það má því segja að é ghafi setið allan hringinn við borðið,“ segir Jóhanna, sem árið 2016 varð yngsti formaður íþróttahéraðs á þeim tíma.
„Það sem stendur upp úr eftir öll þessi eru breytingarnar á íþróttahreyfingunni, hversu opnari hún varð fyrir nokkrum árum fyrir því að gera breytingar í þágu hreyfingarinnar allrar og finna samstöðuna í því á þingum. Það er mikill kraftur í hreyfingunni og allt svo miklu auðveldara þegar við vinnum saman. Því þegar upp er staðið erum við öll að vinna að sama markmiðinu: Að gera hreyfinguna sem besta fyrir öll. Ég hef líka kynnst fullt af fólki og myndað vinasambönd sem mér þykir afar dýrmætt.
Á síðasta ári voru átta svæðisstöðvar íþróttahéraða teknar í gagnið. Markmiðið með svæðisstöðvunum er að styðja við íþróttahéruð landsins við innleiðingu á stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum, auk þess að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi með sérstaka áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakrunn. Jóhanna er í dag svæðisfulltrúi á Austurlandi og sér bæði áskoranir og tækifæri í nýju starfi.
„Þetta hefur gengið vel að mörgu leyti. Við höfum verið að mynda tengsl, greina starfsemina á svæðinu og svo eru nokkur verkefni komin í gang sem við vonum að muni hjálpa til við að gera starfið skilvirkara. Svæðið okkar er landfræðilega stórt en ekki svo fjölmennt og því fylgja ákveðnar áskoranir. Það mæðir mikið á sjálfboðaliðum og það gengur mis vel að fá nýtt fólk inn í starfið. Lítið er um launað starfsfólk er einungis eitt aðildarfélag af 52 með framkvæmdastjóra og aðeins annað héraðið af tveimur með starfsmann. Fjarðlægðir við önnur félög og keppnisstaði gera það að verkum að ferðakostnaður er mikill og það tekur sinn toll af sjálfboðaliðastarfinu. Við erum einnig að vinna við það þessa dagana að greina hvort að það sé að hafa áhrif á brottfall barna sem komin eru á eldri ár grunnskóla og í framhaldsskóla. Það eru þó ekki einungis áskoranir. Við sjáum fullt af tækifærum, bæði á svæðinu okkar og á landinu öllu. Svæðisfulltrúarnir vinna mikið og náið saman og við reynum að yfirfæra verkefni sem virka á einum stað yfir á annan, þó svo að það þurfi kannski að aðlaga að hverjum stað fyrir sig. Ég finn að það hjálpar mér mikið að hafa starfað á íþróttahéraðs stiginu og að þekkja hreyfinguna frá því sjónarhorni. Íþróttahéruðin eru mikilvægur hlekkur í því að halda utan um starfsemi síns sambandssvæðis og það er mikilvægt að þeim sé gert hærra undir höfði.“