Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Bjarni Malmquist nýr formaður USÚ

25.04.2025

 

92. ársþing USÚ, Ungmennafélagsins Úlfljóts, var haldið á Hrollaugsstöðum í Suðursveit þann 22. apríl. Tvær heiðranir voru á þinginu og nýr formaður tók við.

Alls mættu 26 fulltrúar af þeim 37 sem rétt áttu á þingsetu og fulltrúar frá sjö af níu félögum innan USÚ sóttu þingið. Jóhanna íris Ingólfsdóttir, formaður, setti þingið en Jóhanna gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formannssetu og er nýr formaður Bjarni Malmquist Jónsson. Þá kemur Margrét Kristinsdóttir einnig ný inn í stjórn.

Hafsteinn Pálsson, formaður heiðursráðs ÍSÍ, var viðstaddur þingið og heiðraði þau Gunnar Inga Valgeirsson og Jóhönnu Írisi Ingólfsdóttur, fráfarandi formann USÚ.

Í umsögn USÚ um þau Gunnar og Jóhönnu segir:

Gunnar Ingi Valgeirsson - Silfurmerki ÍSÍ
Gunnar Ingi Valgeirsson kom inn í stjórn knattspyrnudeildar Sindra árið 1995 og hefur hann unnið óeigingjarnt starf fyrir deildina síðan. Auk þess að hafa setið í stjórn knattspyrnudeildarinnar, hefur hann sinnt sjálfboðaliðastörfum innan fleiri deilda félagsins og má því með sanni segja að að Gunnar Ingi sé Sindramaður. Hann hefur einnig verið í forystu fyrir félagið í þau skipti sem stór íþróttamót hafa verið haldin á Höfn. Þá er hann einnig með leikjahæstu mönnum Íslandsmótsins í knattspyrnu, með u.þ.b. 420 leiki eftir því sem við komumst næst. Gunnar Ingi er gull af manni sem er boðinn og búinn að hjálpa og styðja við íþróttir í samfélagi sínu sem og á öllu Íslandi. Samfélagslegur hugsunarháttur hans er aðdáunarverður og er hann fyrirmynd fyrir alla sjálfboðaliða.


Jóhanna Íris Ingólfsdóttir - Gullmerki ÍSÍ
Jóhanna Íris Ingólfsdóttir var sæmd gullmerki ÍSÍ en hefur síðustu níu ár verið formaður USÚ. Jóhanna Íris kom inn í stjórn USÚ árið 2015. Hún sat fyrsta árið sem ritari, en tók svo við sem formaður 2016 og hefur sinnt því hlutverki síðan. Raunar hafa einungis tveir sinnt formannshlutverkinu lengur. Jóhanna var einnig formaður yngriflokkaráðs körfuknattleiksdeildar Sindra 2022-2024. Jóhanna er drífandi og alltaf til í að hjálpa til og virðist alltaf hafa nægan tíma fyrir sjálfboðaliðastarf. Um mitt síðasta ár hóf Jóhanna störf sem svæðisfulltrúi ÍSÍ og UMFÍ á Austurlandi, svo þó hún sé nú að hverfa úr stjórn USÚ, þá heldur hún starfinu áfram á öðrum vettvangi.


Myndir með frétt