Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.04.2025 - 26.04.2025

Ársþing ÍF 2025

Ársþing Íþróttasambands fatlaðra (ÍF) verður...
15

Heiðranir á ársþingi ÍA

14.04.2025

 

81. ársþing Íþróttabandalangs Akraness, ÍA, fór fram þann 9. apríl. Jón Þór Þórðarson og Einar Örn Guðnason voru heiðraðir af ÍSÍ á þinginu og þá voru þrjár breytingar á stjórn ÍA.

Formaður ÍA, Gyða Björk Bergþórsdóttir, setti þingið en Gyða Björk gaf áfram kost á sér í formannsembættið og hlaut kjör. Þrjár breytingar voru á stjórn ÍA en Tómas S. Kjartansson er nýr varaformaður og Magnús Guðmundsson og Brynja Kolbrún Pétursdóttir eru ný í stjórn. Þá er Hannibal Hauksson nýr varamaður í stjórn. Þingið var vel sótt og dagskrá með hefðbundnum hætti.

Hafsteinn Pálsson, formaður Heiðursnefndar ÍSÍ, ávarpaði þingið og veitti tvær heiðursviðurkenningar ásamt Hildi Karen Aðalsteinsdóttur úr stjórn ÍSÍ. Gullmerki ÍSÍ fékk Jón Þór Þórðarson fyrir ötult starf í þágu íþrótta á Akranesi og þá fékk Einar Örn Guðnason, fráfarandi formaður Kraftlyftingafélags Akraness, silfurmerki fyrir frábært starf í þágu íþrótta á Akranesi. ÍSÍ óskar heiðurshöfum innilega til hamingju.

Jón Þór Þórðarson - Gullmerki ÍSÍ

Jón Þór er fæddur á Akranesi þann 6. mars árið 1972. Hann hefur verið virkur í íþróttahreyfingunni sem iðkandi, starfsmaður og almennur félagsmaður frá unga aldri. Hann stundaði þá helst knattspyrnu, badminton og svo körfubolta sem síðan varð fyrir valinu sem hans aðal íþróttgrein. Hann lék á ferli sínum yfir 250 leiki með meistaraflokki ÍA frá 1991 – 2006 eða í ein 15 ár.

Jón Þór hóf ungur að sinna þjálfun samhliða því að spila körfubolta. Á sínum rúmlega 30 ára ferli hefur hann þjálfað allt frá minnibolta upp í meistaraflokk karla og kvenna í körfubolta með góðum árangri. Jón Þór lauk íþróttakennaraprófi frá KHÍ á Laugarvatni árið 1998 og hefur kennt íþróttir í fjölmörg ár við ýmsa skóla. Jón Þór hefur sinnt ýmsum verkefnum sem sjálfboðaliði og launaður starfsmaður körfuboltans á Akranesi. Hann hefur átt mjög stóran þátt í uppbyggingu og velgengni körfuboltans á Akranes undanfarin ár.

Jón Þór er mjög hógvær og samviskusamur einstaklingur. Hann hefur sinnt sínum störfum af fagmennsku, og metnaði. Hann hefur verið einstaklega farsæll í sínu forvarnar- og uppeldisstarfi fyrir íþróttahreyfinguna í áratugi. Jón Þór er ekki sestur í helgan stein eins og stundum er sagt þó svo að hann sé hættur í stjórn Körfuknattleiksfélags Akraness. Hann sinnir sjálboðaliðastarfi m.a. á leikjum og sér þar meðal annars um þjálfun á ritaraborðið sem er eitt af mikilvægustu störfum í leikjunum. Jón þór Þórðarson hlaut árið 2018 silfurmerki ÍSÍ og því er vel að því kominn að hljóta nú gullmerki ÍSÍ fyrir langt og farsælt starf fyrir íþróttahreyfinguna á Akranesi.

 

Einar Örn Guðnason – Silfurmerki ÍSÍ

Einar á að baki glæsilegan 15 ára keppnisferil innan kraftlyftinga en hann ákvað að segja skilið við keppni í kraftlyftingum í lok árs 2024. Fyrsti titilinn kom árið 2011 en Íslands- og bikarmeistaratitlarnir urðu alls 32, yfir þrjá þyngdarflokka og 77 sinnum setti hann Íslandsmet.

Einar er hjálpsamur og ávallt tilbúinn að aðstoða og deila reynslu sinni með öðrum meðlimum félagsins og því er ávallt gott að leita til hans. Hann er góður og reynslumikill keppandi í íþróttinni, góður í að hvetja áfram liðsfólk sitt, sem og, andstæðinga og skapar ætíð góðan anda þar sem hann kemur hvort sem er á æfingum eða keppnispallinum. 

Myndir með frétt