Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.04.2025 - 26.04.2025

Ársþing ÍF 2025

Ársþing Íþróttasambands fatlaðra (ÍF) verður...
12

ÍSÍ heiðraði þrjá á ársþingi HSH

11.04.2025

 

84. héraðsþing HSH var haldið í Samkomuhúsinu í Grundarfirði mánudaginn 7. apríl. Formaður HSH, Hjörleifur Kristinn Hjörleifsson, setti þingið en Hjörleifur gaf áfram kost á sér í formannsembættið og var endurkjörinn.

Gestir ávörpuðu þingið og þá héldu svæðisfulltrúar á Vesturlandi, Álfheiður Sverrisdóttir og Heiðar Mar Björnsson, erindi og greindu frá sínum störfum.

Hafsteinn Pálsson, formaður Heiðursráðs ÍSÍ, hélt erindi og veitti eftirfarandi viðurkenningar.

Tryggvi Gunnarsson – Gullmerki ÍSÍ
Tryggvi Gunnarsson er einn af stofnfélögum í Hestamannafélaginu Snæfelling og sat í stjórn Snæfellings um árabil og var formaður þess um tíma. Sat mörg LH þing og var lykilmaður í uppbyggingu svæðisins á Kaldármelum og formaður fjórðungsmótsnefndar bæði 1988 og 1992. Tryggvi var stjórnarmaður í Hrossaræktarsambandi Vesturlands í 8 ár, hann er heiðursfélagi í Hestamannafélaginu Snæfellingi og HrossVest. Duglegur og kraftmikill félagsmaður sem félagið á mikið að þakka.

Ólafur Tryggvason – Silfurmerki ÍSÍ
Ólafur hefur lagt félaginu og hestamennskunni mikið lið í félagsmálum og verið óeigingjarn á sitt starf fyrir hestamenn. Það er margt sem hann hefur komið að fyrir félagið. Var í  stjórn í 12 ár núna síðast og var allan tímann gjaldkeri, var formaður reiðveganefndarinnar.  Þá hafði hann  áður  verið í stjórn félagsins, var í framkvæmdanefnd Fjórðungsmótsins 2017, situr í stjórn Vesturlandsdeildarinnar. Sennilega er Ólafur búinn að vera svo lengi í Snæfelling að hann var varla með aldur til að muna hvernær hann var skráður þar sem faðir hans var mjög virkur félagsmaður hjá Snæfelling. Hvar sem hestamennskan er þá er Óli liðtækur hvort sem er í útreiðum, keppnum, hestaferðum, ræktun eða félagsmálum. Svona félagsmenn er gott að hafa með sér í hverjum þeim verkefnum sem til falla á hverjum tíma.

Jón Pétur Pétursson – Silfurmerki ÍSÍ
Jón Pétur Pétursson var formaður Skotfélags Snæfellsness í 13 ár frá árunum 2011 til 2024 en Jón Pétur hafði það að markmiði að efla félagslífið og bæta aðstæður fyrir skotíþróttafólk á Snæfellsnesi. Hann leiddi félagið í átt að aukinni fagmennsku og bættri aðstöðu fyrir bæði byrjendur og lengra komna. Jón Pétur lagði mikla vinnu í að byggja upp samstarf við aðra félaga og stofnanir innan sem utan skotíþróttahreyfingarinnar. Hann er fyrirmynd innan sem utan félagsins og mun áfram vera talinn einn af helstu stoðum Skotfélags Snæfellsness.


Þær breytingar urðu á stjórn HSH að Garðar Svansson hætti í stjórn eftir 30 ára starf í þágu sambandsins. Var honum við það tækifæri veitt fyrsta gullmerki HSH. Garðar hefur gegnt öllum embættum í stjórn HSH í gegnum árin en og hefur að auki setið í stjórn ÍSÍ frá árinu 2011.

Ársskýrsla HSH

Myndir: Tómas Freyr Kristjánsson fyrir HSH. Fleiri myndir af ársþinginu má finna á heimasíðu HSH hér.

Myndir með frétt