Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.04.2025 - 26.04.2025

Ársþing ÍF 2025

Ársþing Íþróttasambands fatlaðra (ÍF) verður...
15

Magnús sæmdur gullmerki ÍSÍ á þingi UÍA

10.04.2025

 

75. Sambandsþing Ungmenna- og íþróttasambans Austurlands, UÍA, var haldið í félagsheimilinu Skrúð á Fáskrúðsfirði þann 29. mars 2025.

Þingið var vel sótt og hófst á því að Benedikt Jónsson, formaður UÍA, fór yfir skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár. Fyrir þinginu lágu tillögur um breytingar á útdeilingu lottófjármuna og var niðurstaðan sú að mynda starfshóp sem færi betur yfir útfærslur.

Á þinginu veitti stjórn UÍA íþróttamanni ársins viðurkenningu og var það Ásgeir Máni Ragnarsson, fimleikamaður, sem hlaut kjör að þessu sinni. Hermannsbikarinn er veittur á hverju ári og en hann er veittur þeim einstaklingi, deild eða félagi innan UÍA sem staðið hefur fyrir nýsköpum, þróun eða uppbyggingu í í starfi. Að þessu sinni fór hann til Stubbaskóla Jennýar - Oddsskarði. Stubbaskólinn býður upp á þjónustu við börn sem eru að stíga sín allra fyrstu skref á skíðum og hefur síðastliðin ár verið undir stjórn Jennýar Jörgensen og Jóhanns Tryggvasonar.

Stjórn UÍA var endurkjörin á þinginu en þrjú koma ný inn sem varamenn í stjórn. Það eru þau Ásta Kristín Michelsen, Eyþór Stefánsson og Margrét Bjarnadóttir.

Magnús Björn Ásgrímsson, frá Ungmennafélaginu Leikni Fáskrúðsfirði, var heiðraður með gullmerki ÍSÍ og óskar ÍSÍ honum innilega til hamingju. Magnús átti ekki heimangengt á þingið en fékk gullmerkið afhent þegar heim var komið. Hafsteinn Pálsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ sat þingið fyrir hönd framkvæmdastjórnar og afhenti Líneik Önnu Sævarsdóttur, eiginkonu Magnúsar, gullmerkið.
 
Magnús Björn Ásgrímsson, Umf. Leikni, Fáskrúðsfirði.

Strax á barnsaldri var knattspyrna stunduð frá morgni til kvölds á æskuslóðunum á Borgarfirði eystra og svo var líka reynt fyrir sér í handbolta og körfubolta. Um tvítugt var Magnús formaður UMFB á Borgarfirði, þannig að hann byrjaði snemma sem sjálfboðaliði í íþróttahreyfingunni. Magnús spilaði með eftirtöldum félögum í þessari röð: UMFB, Hrafnkel Freysgoða, Hetti, Neista, Aftureldingu, Skallagrími og síðast Leikni Fáskrúðsfirði.

Magnús þjálfaði og spilaði með knattspyrnuliði Neista á Djúpavogi eitt tímabil og hélt því síðar fram að hann væri versti þjálfari sem hann hafði haft um ævina.

Árið 1995 flutti Magnús til Fáskrúðsfjarðar og fór að stunda knattspyrnu með Leikni og 1997 var hann kjörinn í stjórn Knattspyrnudeildar Leiknis og hefur að öllum öðrum ólöstuðum, dregið þann vagn í þrjá áratugi.

Magnús hefur gengt trúnaðarstörfum fyrir KSÍ og allir sem til hans þekkja vita hversu ósérhlífinn Magnús er og verður honum seint þakkað fyrir sitt ómetanlega starf.



Fleiri myndir og umfjöllun um þing UÍA má finna á vef UMFÍ. Myndirnar tók Gunnar Gunnarsson.

Myndir með frétt