Fararstjórafundur Ólympíuhátíðar Evrópuæskunnar í Skopje

Dagana 8. til 11. apríl fer fram fararstjórafundur vegna Ólympíuhátíðar Evrópuæskunnar, sem haldin verður í Skopje, Norður Makedóníu 20. til 26. júlí 2025. Keppnin er fyrir evrópsk ungmenni á aldrinum 14 -18 ára.
Brynja Guðjónsdóttir, sérfræðingur á Afreksíþróttasviði ÍSÍ og Linda Laufdal, sérfræðingur á Fræðslu- og almenningsíþróttasviði ÍSÍ, mættu á fararstjórafundinn en þær verða fararstjórar á leikunum að þessu sinni.
Á fundinum er farið yfir keppnisgreinar, aðstöðumál, skráningar, samgöngur og annað sem þarf til að undirbúa leika sem þessa. Alls verður keppt í 15 íþróttagreinum; áhaldafimleikum, badminton, blaki, borðtennis, kanó, fjallahjólreiðum, götuhjólreiðum, skotfimi, taekwondo, frjálsíþróttum, körfubolta, körfubolta 3x3, handknattleik, júdó, og sundi, Keppendur frá Íslandi verða að þessu sinni 45 og taka þátt í sjö greinum; borðtennis, badminton, götuhjólreiðum, frjálsum íþróttum, handknattleik, júdó og áhaldafimleikum.
Keppt verður í Skopje, Kumanovo og Osijek í Króatíu. Keppnisaðstaðan er með ágætum. Keppendur, þjálfarar, liðsstjórar og aðstoðarfólk mun gista á stúdentagörðum, hostelum og hótelum.
Líney Rut Halldórsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri ÍSÍ og nú ráðgjafi hjá sambandinu, sat einnig fundinn en hún er formaður EOC EYOF Commission, sem er yfirnefnd Ólympíuhátíðar Evrópuæskunnar. Nefndin er eftirlitsnefnd með framkvæmd hátíðarinnar og gegnir ábyrgðarmiklu starfi við undirbúning og framkvæmd þessara verkefna Evrópusambands Ólympíunefnda (EOC).
Finna má frekari upplýsingar um leikana hér.