Heiðurskross, gullmerki og silfurmerki ÍSÍ á þingi UMSK
.jpg?proc=400x400)
101. Héraðsþing UMSK var haldið í veislusal HK í Kópavogi þann 22. mars og var þingið vel sótt. Guðmundur G. Sigurbergsson var endurkjörinn formaður sambandsins til næstu tveggja ára.
Fyrir hönd framkvæmdastjórnar ÍSÍ mættu til þingsins þeir Hafsteinn Pálsson, sem einnig er formaður Heiðursráðs ÍSÍ, og Valdimar Leó Friðriksson. Þeir höfðu umsjón með afhendingu heiðursviðurkenninga til eftirfarandi einstaklinga, samkvæmt ákvörðun framkvæmdastjórnar ÍSÍ:
Heiðurskross ÍSÍ hlaut Þórður Guðmundsson, Breiðabliki. Þórður er einn af máttarstólpum frjálsíþrótta hjá UMSK og Breiðabliki, fyrst sem keppandi og síðar sem leiðtogi. Hann átti glæsilegan hlaupaferil og setti meðal annars á ferli sínum mörg Íslandsmet. Hann sat lengi í stjórn frjálsíþróttadeildar Breiðabliks, meðal annars sem formaður. Hann var einnig mjög virkur í sjálfboðaliðastarfi í þágu UMSK og er framlag hans ómetanlegt bæði fyrir Breiðablik og UMSK.Þórður gat ekki veitt Heiðurskrossinum viðtöku á þinginu en fær hann afhentan við fyrsta tækifæri.
Gullmerki ÍSÍ hlutu þeir Pétur Ómar Ágústsson frá Breiðabliki og Ragnar Gíslason frá HK.Pétur Ómar kom fyrst inn í knattspyrnudeild Breiðabliks árið 1982 og þá sem formaður meistaraflokksráðs kvenna og hefur síðan þá verið viðriðinn félagsstörf fyrir deildina og félagið í heild sinni. Pétur Ómar á stóran þátt í stuðningsmannavefnum www.blikar.is þar sem skoða má tölfræði um leiki allra leikmanna meistaraflokka Breiðabliks frá upphafi.
Ragnar hefur unnið ómetanlegt starf fyrir knattspyrnu hjá Handknattleiksfélagi Kópavogs (HK) og bæði verið yfirþjálfari og þjálfari yngri flokka. Hann hefur helgað líf sitt íþróttinni og haft gríðarleg áhrif á ótal börn sem stíga sín fyrstu skref í knattspyrnunni undir hans leiðsögn. Hann hefur með eldmóði, þolinmæði og hlýju skapað öruggt og hvetjandi umhverfi fyrir unga iðkendur til að vaxa og dafna, bæði í íþróttinni og sem einstaklingar. Ragnar er einnig mikil fyrirmynd sem hefur kennt kynslóðum gildi samvinnu og virðingar.
Silfurmerki ÍSÍ hlutu þau Flosi Eiríksson fyrir störf í þágu knattspyrnu hjá Breiðabliki, Viktoría Gísladóttir fyrir störf í þágu sunddeildar Breiðabliks og Sundsambands Íslands, Gunnþór Hermannsson fyrir störf sjálfboðaliðastörf í þágu HK og Valdís Árnadóttir fyrir störf í þá handknattleiksdeildar HK. ÍSÍ óskar heiðurshöfunum öllum innilega til hamingju með viðurkenningarnar!
Nánari fréttir af ársþingi UMSK er að finna á heimasíðu sambandsins, umsk.is.
Mynd 1: Guðmundur Sigurbergsson, formaður UMSK.
Mynd 2: Hafsteinn Pálsson, Pétur Ómar Ágústsson, Valdís Árnadóttir, Flosi Eiríksson, Viktoría Gísladóttir, Ragnar Gíslason og Valdimar Leó Friðriksson. Á myndina vantar Gunnþór Hermannsson.