Björn endurkjörinn formaður SSÍ

66. ársþing Sundsambands Íslands fór fram í húsakynnum SÁÁ í Efstaleiti þann 29. mars síðastliðinn. Þar var Björn Sigurðsson endurkjörinn formaður til næstu tveggja ára.
Ein breyting varð á stjórn SSÍ þar sem Viktoría Gísladóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn en Viktoría mun áfram starfa í dómaranefnd SSÍ. Magnús Tryggvason var kjörinn nýr í stjórn en hann hefur verið viðloðandi hreyfinguna í tugi ára.
Fjölmargir voru heiðraðir á þinginu, 24 voru sæmdir silfurmerki SSÍ og 11 sæmdir gullmerki. Á meðal þeirra sem sæmdir voru gullmerki voru fjórir Ólympíufarar, þau Jakob Jóhann Sveinsson, Hrafnhildur Lúthersdóttir, Eygló Ósk Gústafsdóttir og Anton Sveinn McKee.
Eðvarð Þór Eðvarðsson, Guðmundur Gíslason og Hrafnhildur Guðmundsdóttir voru svo gerð að heiðursfélögum SSÍ og eru heiðursfélagar Sundsambands Íslands nú orðnir fimm. Fyrir voru þeir Ólafur Ragnar Grímsson og Guðmundur Þ. Harðarson.
Nánari umfjöllun um ársþingið og heiðurshafana má finna á heimasíðu Sundsambandsins.