Grétar áfram formaður BLÍ

53. ársþing Blaksambands Íslands var haldið í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal þann 28. mars.
Grétar Eggertsson, formaður BLÍ, setti þingið formlega en Grétar var einn í kjöri formanns og var hann því sjálfkjörinn til næstu tveggja ára. Þær breytingar urðu á stjórn BLÍ að Guðrún Kristín Einarsdóttir vék úr stjórn og Elsa Sigrún Elísdóttir var kjörin ný inn. Lúðvík Kristinsson var nýr kjörinn í varastjórn en úr henni vék Eldey Hrafnsdóttir.
Ný reglugerð um fjölda íslenskra leikmanna í efstu deild og í bikarkeppni BLÍ var samþykkt á þinginu með miklum meirihluta þingfulltrúa. Í henni kemur fram að tveir íslenskir leikmenn skuli vera inni á vellinum hjá hvoru liði á hverjum tíma í leikjum efstu deildar og í bikarkeppni. Skýr viðurlög fylgja brotum, meðal annars 3-0 tap og sektir. Þriðja brot getur leitt til útilokunar liðs úr mótinu. Þinggerð má lesa hér.
Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, og Valdimar Leó Friðriksson úr framkvæmdastjórn voru fulltrúar ÍSÍ á þinginu.