Albert sæmdur gullmerki ÍSÍ

Albert Ólafsson var sæmdur gullmerki ÍSÍ á 3. ársþingi Bogfimisambands Íslands sem fram fór þann 29. mars. Albert lét af störfum sem gjaldkeri BFSÍ á þinginu en hann hafði sinnt því starfi frá stofnun Bogfimisambandsins. Það var Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, sem veitti Alberti heiðursviðurkenninguna.
Í umsögn um Albert á heimasíðu BFSÍ segir meðal annars að Albert hafi unnið ómetanleg störf í þágu stjórnar BFSÍ og í uppbyggingu sambandsins.
„Albert hefur þjónað í stjórn BFSÍ sem gjaldkeri frá stofnun sambandsins í desember 2019 og sóttist ekki eftir endurkjöri á næsta tímabili. Hann er þó ekki að öllu horfinn úr starfi og mun þjóna sem skoðunarmaður reikninga sambandsins og sjá um bókhald ásamt því að vera ráðgjafi næsta gjaldkera BFSÍ. Albert áætlar að byrja að æfa aftur af krafti í staðinn enda er hann heimsmet- og Evrópumethafi öldunga í íþróttinni.”