Verðlaunaplattar í Lífshlaupinu afhentir á Akureyri
.jpg?proc=400x400)
Lífshlaupið hefur hvatt þúsundir landsmanna til aukinnar hreyfingar og á Akureyri voru nýverið afhentir verðlaunaplattar til þátttakenda sem áttu ekki heimangengt á verðlaunaafhendinguna þann 28. febrúar sl.
Viðar Sigurjónsson, sérfræðingur á stjórnsýslusviði afhenti Giljaskóla, Þelamerkuskóla og Oddeyrarskóla sína verðlaunaplatta en þessir skólar voru allir í verðlaunasætum í grunnskólakeppninni. Þess má geta að Oddeyrarskóli hefur alls hlotið níu viðurkenningar í gegnum árin. Margrét Þ. Aðalgeirsdóttir deildarstjóri og Anna Bergrós Arnarsdóttir skólastjóri Oddeyrarskóla, tóku við viðurkenningunni fyrir hönd skólans. Skólinn hefur verið mjög virkur í Lífshlaupinu og hvetur nemendur og starfsfólk til reglulegrar hreyfingar.
Í vinnustaðakeppninni var verðlaunaplatti afhentur Flugsafninu á Akureyri, en vinnustaðurinn lenti í 3. sæti í dögum í sínum flokki. Starfsfólk safnsins hefur tekið virkan þátt í Lífshlaupinu í gegnum árin.
Að lokum voru það svo tveir hreystihópar sem fengu afhenta verðlaunaplatta en liðstjórarnir voru Jón Magnússon í liðinu „Jón Magg 74 ára“ og Helga Gísladóttir í liðinu „Akureyrarhreysti“ sem fengu verðlaunaplatta fyrir frábæran árangur í flokknum Hreystihópar 67+.
Lífshlaupið heldur áfram að efla hreyfingu og vellíðan um allt land, og það er ljóst að Akureyringar hafa tekið verkefninu fagnandi!
ÍSÍ og Lífshlaupið óskar öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju!
Meðfylgjandi myndir eru af afhendingu til Jóns Magnússonar, Flugsafnsins og Oddeyrarskóla