Ráðstefna í tilefni af Alþjóðlegum baráttudegi kvenna

Í tilefni af Alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars, héldu ÍSÍ, UMFÍ og HR ráðstefnu sem bar yfirskriftina Konur og íþróttir – Hvað segja vísindin? Ráðstefnan fór fram í HR og var stýrt af Silju Úlfarsdóttur. Á ráðstefnunni sögðu ungir vísindamenn frá niðurstöðum nýlegra rannsókna sem unnar hafa verið með íþróttakonur sem viðfangsefni.
Fyrstar á mælendaskrá voru dr. Ingunn S. Unnsteinsdóttir og dr. Lára Eggertsdóttir Claessen en þær sögðu frá niðurstöðum viðamikillar rannsóknar um áhrif heilahristings á andlega heilsu, hugræna virkni, hormónavirkni og lífsgæði íslenskra kvenna í íþróttum. Meðal þess sem fram kom í þeirra fyrirlestri var að konur virðast vera útsettari fyrir afleiðingum heilahristings, en ein af afleiðingunum getur verið truflun á starfsemi heiladinguls sem getur haft alvarlegar líkamlegar og sálrænar afleiðingar ef ekki er meðhöndlað.
Lára Hafliðadóttir sagði frá því hvaða sérhæfðu áherslur eru mikilvægar í fræðslu fyrir og um konur í íþróttum. Kynþroskaskeiðið er viðkvæmur tími fyrir stelpur, þar sem á því skeiði eykst fitusöfnun, fituprósentan hækkar, meiðslatíðini eykst og vaxtatengdir verkir verða algengilegri. Á þessu skeiði eru stelpur líklegri til að hætta í íþróttum. Þau ráð sem hún gaf þjálfurum var að hafa æfingar fjölbreyttar, byrja fyrr á styrktarþjálfun, stýra álagi á æfingum og opna umræðu um tíðarhringinn.
Hjalti Rúnar Oddsson fjallaði um mælingar á líkamlegu atgervi yngri kvennalandsliða Íslands í hand-, körfu- og fótbolta. Hjalti bar saman líkamlegt atgervi áranna 2019 og 2023 en þar kom fram að niðurstaða mælinga bendir til að frammistaðan hefur batnað í hand- og körfubolta en var lakari hjá knattspyrnustúlkum árið 2023 en 2019. Í fyrirlestri Hjalta Rúnars kom fram að með samstarfi íþróttafræðinema í HR og sérsambanda ÍSÍ hafa komið 35 MSc verkefni og þarf af níu bara um konur í íþróttum. Afrakstur mælinganna hafa svo verið útgáfa handbóka sem innihalda ítarlegar leiðbeiningar um framkvæmd mælinga, myndbönd af framkvæmd mælinga og viðmið – hvernig er frammistaða í samanburði við leikmenn yngri landsliða.
Sólveig Þórarinsdóttir flutti erindi um áhrif hormóna á krossbandaslit, það sem við vitum um þau og hvað við vitum ekki. Í erindi hennar kom fram að konur eru 2-6x líklegri til að slíta krossbönd en karlar og konur virðast vera yngri þegar þær slíta en karlar. Konur eru líklegastar til að slíta á aldrinum 14-19 ára, en 50% af þeim konum sem slíta snúa aftur á sama getustig og áður. Í máli Sólveigar kom fram að rannsóknir bendi ekki endilega til að konur séu líklegri til að slíta krossbönd í einum fasa tíðarhrings en í öðrum. Hún benti á mikilvægi þess að fylgjast með því hvort að blæðingar séu reglulegar, þar sem engar eða óreglulegar blæðingar auka líkur á meiðslum tvö- til fjórfalt. Hún lauk máli sínu með því að benda á að það er hægt að fyrirbyggja 50% af krossbandaslitum með því að gera forvarnaræfingar og benti á síðuna fittoplay sem inniheldur forvarnaræfingar fyrir allan líkamann, óháð íþróttagrein.
Dr. Hafrún Kristjánsdóttir flutti erindi um kynferðislega áreitni í íslenskum íþróttum: Algengi og tengsl við geðheilsu og svefnvanda. Í máli hennar kom fram að upplifun á kynferðislegri áreitni getur leitt til, einbeitingarvandamála, svefnleysis og annarra svefnvandamála, kvíða og þunglyndis, lágs sjálfsmats og sjálfstrausts og lakari íþróttalegrar frammistöðu. Erfitt er að segja til um algengi enda rannsóknir misvísandi en afreksíþróttafólk er í áhættuhópi fyrir því að verða fyrir kynferðislegri áreitni, misnotkun og ofbeldi. Að lokum sagði hún frá niðurstöðum BATNA rannsóknar sem unnin var í samstarfi ÍBR og HR en markmiðið með þeirri rannsókn var að kanna heilsutengd vandamál íþróttafólks á efsta stigi 18 ára og eldri í Reykjavík. Í niðurstöðum kom m.a. fram að íslenskar íþróttakonur eru mun líklegri til að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni en kynsystur þeirra í Noregi. Um þriðjungur kvenna í einstaklingsíþróttum svöruðu því til að þær hefðu upplifað kynferðislegu áreitni samanborið við rúmlega helming kvenna í hópíþróttum.
Dr. Rúna Sif Stefánsdóttir kynnti fyrstu niðurstöður SKORA, en í verkefninu er heilsa, atgervi og færni knattspyrnustúlkna á 12. ári skoðuð. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á frammistöðufærni kvenna hérlendis og erlendis. Þetta er langtímarannsókn þar sem þróun á líkamlegu atgervi, frammistöðu og andlegri líðan verður skoðuð aftur þegar stelpurnar verða á 14. ári og svo aftur tveimur árum síðar. Gerðar voru afkastagetumælingar, tekin röntgen mynd af úlnið til þess að meta líffræðilegan þroska, beinþéttni mæling, og svo voru lagðir fyrir spurningalistar til að safna ýmsum bakgrunnsupplýsingum. Í niðurstöðum kom meðal annars fram mikill breytileiki í hæð og þyngd stelpnanna og líffræðilega er aldur þeirra frá tæplega níu ára í tæplega 15 ára, en allar voru stelpurnar fæddar á sama almanaksári. Einnig var mikill breytileiki á frammistöðu í afkastamælingum. Munur á líkamlegum þroska einstaklinga á sama aldri sýnir að þjálfari verður að taka tillit til þessa mikla breytileika þegar hann skipuleggur æfingar sínar.
Síðust á mælendaskrá var Katrín Ýr Friðgeirsdóttir en í erindi sínu talaði hún um mikilvægi svefns fyrir konur í íþróttum, áskoranir tengdar svefni kvenna og hvernig svefn hefur áhrif á frammistöðu kvenna í íþróttum. Hún talaði um hversu mikilvægur svefn er íþróttafólki, fullnægjandi svefn væri besta endurheimtin og minnkaði einnig líkur á meiðslum. Ýmsir þættir hafa áhrif á lengd svefn, t.d. geta æfingar eða keppni á kvöldin haft áhrif á gæði svefn nóttina á eftir. Íþróttafólk sem orðið hefur fyrir höfuðhöggi er líklegra til að upplifa svefntruflanir og það sama á við um íþróttafólk sem upplifir frammistöðukvíða. Konur almennt telja sig þurfa meiri svefn en karlar og eru þær viðkvæmari fyrir svefntruflunum. Í máli Katrínar kom fram að æfingar og keppni að morgni eða degi til henta konum betur en æfingar og keppni að kvöldi.
Vel var mætt á ráðstefnuna bæði í sal og í streymi og sköpuðust góðar umræður eftir hvert erindi. Eftir að ráðstefnunni lauk var ráðstefnugestum boðið upp á léttar veitingar og skemmtilegan fyrirlestur hjá Önnu Steinsen um helstu einkenni og ólík viðhorf kynslóðanna.
Hér er tengill á upptöku frá ráðstefnunni.