Reinharð endurkjörinn formaður KAÍ

Karatesamband Íslands hélt sitt 38. karateþing þann 2. mars í húsakynnum ÍSÍ í Laugardal. Þingið sóttu 36 þingfulltrúar frá 10 karatefélögum og karatedeildum, auk stjórnarmanna.
Reinharð Reinharðsson var endurkjörinn formaður Karatesambandsins. Þrjú ný voru kjörin í stjórn KAÍ, þau Gaukur Garðarsson, Gunnlaugur Sigurðsson og Ronja Halldórsdóttir. Þá voru tvö ný kjörin í varastjórn; Anna María Þórðardóttir og Elías Guðni Guðnason.
40 ár eru nú frá því Karatesamband Íslands var stofnað og af því tilefni ákvað stjórn sambandsins að heiðra nokkur með gullmerki KAÍ fyrir öflugt starf og útbreiðslu á íþróttinni. Þau sem voru sæmd gullmerki KAÍ voru þau Birkir Jónsson, Gunnlaugur Sigurðsson, María Helga Guðmundsdóttir og Wilhelm Cornelius Verheul.
Þingforseti var Valdimar Leó Friðriksson og þingritari Sigþór Samúelsson.