Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Líney endurkjörin í stjórn EOC

28.02.2025

 

Líney Rut Halldórsdóttir ráðgjafi ÍSÍ og fyrrum framkvæmdastjóri sambandsins, var í dag endurkjörin í stjórn Evrópusambands Ólympíunefnda (EOC) á ársþingi sambandsins í Frankfurt. Hlaut hún frábæra kosningu og fékk næstflest atkvæði i kjörinu en 49 þjóðir kusu á þinginu sem fram í dag og á morgun. Líney Rut var fyrst kjörin í stjórn samtakanna árið 2017, fyrst allra Íslendinga.

Líney Rut hefur á síðustu árum m.a.  gegnt stöðu formanns nefndar EOC, EOC EYOF Commission, sem sér um málefni Ólympiuhátíða Evrópuæskunnar, en bæði sumar- og vetrarhátíð fara fram annað hvert ár og eru meðal stærstu íþróttaviðburða álfunnar. Hefur hún fengið mikið lof fyrir sín störf innan EOC og er vel kynnt á meðal Ólympíunefnda í Evrópu.

Ný stjórn EOC tekur við að loknu þinginu, en kosið er til fjögurra ára. Sjálfkjörið var í æðstu embætti EOC þar sem eingöngu eitt framboð barst í hvert embætti. Spyros Capralos frá Grikklandi var endurkjörinn sem forseti, Daina Gudzineviciute frá Litháen sem varaforseti, Peter Mennel frá Austurríki sem gjaldkeri og Carlo Mornati frá Ítalíu sem framkvæmdastjóri. Þingið sækja af hálfu ÍSÍ, þeir Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og Andri Stefánsson framkvæmdastjóri.

Það er afar mikilvægt fyrir Ísland að eiga fulltrúa í æðstu stjórn Ólympíuhreyfingarinnar í Evrópu og við hjá ÍSÍ erum stolt af árangri Líneyjar, sem byrjar í dag sitt þriðja kjörtímabil í stjórn EOC.

Stjórn og starfsfólk ÍSÍ óskar Líneyju Rut innilega til hamingju með frábært kjör.

 

Myndir með frétt