Talsverð aukning í þátttöku í Lífshlaupinu í ár
.png?proc=400x400)
Lífshlaupinu lauk formlega í gær þann 26. febrúar en verðlaunaafhending í verkefninu fer fram í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal á morgun og hefst kl.12:10.
Um 13% fjölgun var á þátttöku í Lífshlaupinu frá síðasta ári, en 18.612 tóku þátt í ár, samanborið við 16.475 í fyrra. Sama hlutfallslega fjölgunin var í mínútum, dögum og fjölda liða. Þátttaka grunn- og framhaldsskóla tók við sér í ár samanborið við síðasta ár en 23 grunnskólar tóku þátt í ár, en 19 í fyrra. Í ár tóku átta framhaldsskólar þátt í stað sex árið 2024.
Vinnustöðum var eins og áður skipt í flokka eftir fjölda starfsmanna og í ár tóku 492 vinnustaðir þátt í Lífshlaupinu sem voru heldur færri vinnustaðir en 2024 en þá voru 505 vinnustaðir skráðir til leiks. Einnig var þátttaka í Hreystihópum 67+ heldur minni í ár en í fyrra.
ÍSÍ þakkar þátttakendum kærlega fyrir að vera með og setja hreyfinguna í öndvegi. Styrktaraðilum eru færðar kærar þakkir fyrir þeirra framlag en þeir eru: Dagný & Co, Mjólkursamsalan, Lemon, Primal Iceland, Skautahöllin í Laugardal, Klifurhúsið og Unbroken. Morgunverkin á Rás 2 fá einnig miklar þakkir fyrir frábært samstarf. Úrslit í einstökum flokkum verða kunngjörð á morgun.