Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Nýr forseti verður kjörinn á 77. Íþróttaþingi ÍSÍ í maí

26.02.2025

 

Á fundi framkvæmdastjórnar ÍSÍ í dag, tilkynnti Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ að hann sækist ekki eftir endurkjöri í embætti forseta sambandsins á 77. Íþróttaþingi ÍSÍ í maí nk. 

Lárus L. Blöndal:

„Ég hef setið í stjórn ÍSÍ í 23 ár, þar af 7 ár sem varaforseti og 12 ár sem forseti. Þetta hefur verið mjög ánægjulegur tími þar sem tekið hefur verið á ýmsum stórum verkefnum. Við erum einmitt í  risastórum verkefnum í dag, sem skipta miklu máli fyrir íþróttahreyfinguna að gangi eftir.

Á síðustu árum hefur orðið alger umbylting í umhverfi afreksíþrótta með gríðarlegri aukningu fjármagns til Afrekssjóðs ÍSÍ, ný Þjóðarhöll í innanhússíþróttum er komin á hönnunar- og framkvæmdastig, endurbætur á Laugardalsvelli eru hafnar og nýr þjóðarleikvangur í frjálsíþróttum í Laugardal er í undirbúningi.

Nýjasta stóra verkefnið okkar eru nýstofnaðar átta svæðisstöðvar íþróttahéraða, í samstarfi með UMFÍ. Verkefnið hefur gefið af sér 16 nýja starfsmenn samtakanna, sem munu gefa aukinn kraft í starfið úti um land allt. 

Sem forseti stærstu fjöldahreyfingar landsins hef ég þurft að mæta mörgum krefjandi aðstæðum. Tímabil kórónuveirufaraldursins var gríðarlega erfitt, krefjandi og flókið en einnig gefandi og lærdómsríkt, til langs tíma litið. Á því tímabili lærðum við öll eitthvað, um okkur sjálf, okkar umhverfi og um aðra. Við lærðum að hugsa í lausnum og nýta betur tæknina og við urðum meðvitaðri um heilsuna. Einnig styrkti þessi krefjandi tími samstarf ÍSÍ og opinberra aðila. Traust skapaðist á milli hreyfingarinnar og stjórnvalda og það endurspeglaðist í gríðarlega mikilvægum fjárstuðningi ríkisins við hreyfinguna í fordæmalausum aðstæðum. Á þessum tímum sýndi íþróttahreyfingin hvers hún er megnug, þessi dýrmæta sjálfboðaliðahreyfing sem lætur ekkert stöðva sig og mætti þessum snúnu aðstæðum með samtakamáttinn og sterkan vilja að vopni. 

Ég geng mjög sáttur frá borði. ÍSÍ og íþróttahreyfingin stendur vel og á sterkum grunni. Það hefur oft verið krefjandi að sinna embætti forseta ÍSÍ meðfram vinnu og fjölskyldulífi, en einnig virkilega gefandi og spennandi. Ég hef verið afar lánsamur með samferðarfólk í leiðtogastörfum mínum í hreyfingunni og ég er mjög þakklátur öllu því góða fólki sem ég hef starfað með í gegnum árin.”

77. Íþróttaþing ÍSÍ verður haldið dagana 16. og 17. maí næstkomandi á Hótel Berjaya Reykjavik Natura.

Myndir með frétt