Sædís Heba keppti á listskautum á EYOWF í dag
Ein keppnisgrein fór fram hjá íslenska hópnum í dag á Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Sædís Heba Guðmundsdóttir keppti í stuttu prógrammi í listskautum. Keppnisgreinar hátíðarinnar fara fram á þremur stöðum en listskautarnir fara fram í Batumi þar sem keppt er í nýju íþróttamannvirki, Batumi Ice Arena, en þetta er í fyrsta sinn sem alþjóðleg keppni í listskautum fer fram í Georgíu. Mannvirkið er í um fimm klukkustunda akstursfjarlægð frá keppnissvæðunum í Bakuriani.
Sædísi Hebu gekk vel að framkvæma sitt prógramm og hafnaði í 24. sæti en alls tók 31 keppandi þátt í greininni.
Hópurinn í Bakuriani nýtti daginn í dag í æfingar og endurheimt ásamt því að fylgjast með Sædísi Hebu í beinu streymi á skjánum. Seinni part dags var farið í smá skoðunarferð um svæðið þar sem farið var með skíðalyftu upp í fjall við hótel keppenda. Í kvöld er svo öllum keppendum í Bakuriani boðið í Get together party kl. 20:00 – 22:00. Það fer fram utanhúss við Crystal hótel þar sem verðlaunaafhendingar á hátíðinni fara fram. Plötusnúður heldur uppi fjörinu með tónlist og boðið verður upp á veitingar.
Á morgun, 13. febrúar, fer fram keppni drengja í svigi í alpagreinum kl.05:00 að íslenskum tíma, skíðaganga stúlkna í 7,5 km göngu kl.06:00 að íslenskum tíma og 10 km skíðaganga drengja kl. 8:30 að íslenskum tíma. Sædís Heba hefur síðan keppni í frjálsum æfingum í listskautum kl.11:00 að íslenskum tíma.