Uppfærð jafnréttisáætlun ÍSÍ fyrir íþróttafélög
![](/library/Myndir/Fraedslusvid/Screenshot%202025-02-11%20193957.png?proc=400x400)
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Jafnréttisstofa hafa átt í góðu samstarfi undangengin ár og m.a. gefið út jafnréttisáætlun sem öll íþróttafélög geta nýtt sér í starfinu. Nú nýverið var sú áætlun endurskoðuð og má finna uppfærða jafnréttisáætlun hér. Eins voru leiðbeiningar fyrir íþróttafélög um jafnréttisáætlunina uppfærðar.
Jafnréttisáætlunin er ætluð fyrir öll íþróttafélög og sérstaklega er litið til þess að öll Fyrirmyndarfélög ÍSÍ samþykki þessa áætlun og noti hana í sínu starfi. Jafnréttisáætlunin tekur á hinum ýmsu þáttum jafnréttis og með notkun leiðbeininganna geta íþróttafélög betur fundið út sína stöðu og leiðrétt óhagstæða stöðu ef hún er fyrir hendi.Jafnréttisáætlunin byggir á lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og tekur einnig mið af lögum nr. 85/2018 um jafna meðferð utan vinnumarkaðar. Hún er mikilvægt verkfæri til að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna og vinna gegn mismunun.
Jafnréttisstofa og ÍSÍ hvetja allar einingar í íþróttahreyfingunni til að vinna markvisst að jafnrétti í íþróttum og nýta sér jafnréttisáætlunina og leiðbeiningarnar til bætinga þar sem þeirra er þörf.
Jafnréttisstofa og ÍSÍ munu verða í áframhaldandi samstarfi um eflingu jafnréttis innan íþróttahreyfingarinnar.