Áframhaldandi stuðningur við Íþróttasamband fatlaðra

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra og Þórður Árni Hjaltested formaður Íþróttasambands fatlaðra (ÍF) undirrituðu í dag samning um áframhaldandi stuðning við ÍF. Markmið samningsins er að auka þátttöku fatlaðra í íþróttastarfi.
Undanfarin ár hefur verið lögð aukin þátttaka, af hálfu mennta- og barnamálaráðuneytis, að styðja við íþróttaiðkun fatlaðra og má þar nefna verkefnið „Allir með“ sem miðar að því að fjölga tækifærum og auka aðgengi fatlaðra að íþróttum. Allir með er samstarfsverkefni ÍF, ÍSÍ og UMFÍ og nýtur stuðnings þriggja ráðuneyta, þ.e. mennta- og barnamálaráðuneytis, félags- og vinnumálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis.
Þess má geta að í tillögum starfshóps mennta- og barnamálaráðuneytis, sem Vésteinn Hafsteinsson afreksstjóri ÍSÍ leiddi og komu fram í skýrslu starfshópsins sem gefin var út í apríl 2024, var lögð sérstök áhersla á afreksstarf fyrir fatlað íþróttafólk.
Samkvæmt frétt ráðuneytisins þá er Íþróttasambandi fatlaðra með samningnum falið að:
- stuðla að heilbrigðum lífsháttum og hollri hreyfingu,
- veita faglegan stuðning og ráðgjöf til að skapa sem hagstæðustu skilyrði til íþróttaiðkunar og gefa sem flestum kost á að taka þátt,
- vinna að útbreiðslu, fræðslu og forvarnarmálum,
- undirbúa og tryggja þátttöku Íslands á Paralympics og öðrum tengdum verkefnum.
Samningurinn gildir til eins árs.
Mynd/MRN - Þórður Árni og Ásthildur Lóa við undirritun samningsins.