Lífshlaupið sett á Landspítalanum við Hringbraut
Setning Lífshlaupsins 2025 fór fram í Hringsalnum á Landspítalanum við Hringbraut, og var það ræst í átjánda sinn. Samhliða kynnti heilsuteymi LSH heilsueflandi efni sem var streymt á til starfsfólks LSH.
Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ bauð gesti velkomna og stýrði dagskrá. Þeir aðilar sem ávörpuðu samkomuna voru:
Alma D. Möller, heilbrigðisráðherra, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, Guðrún Aseplund, settur landlæknir, Eygló Fanndal Sturludóttir, afreksíþróttakona í lyftingum og læknanemi og Guðrún Día Hjaltested, starfsmannasjúkraþjálfari LSH. Hér má sjá dagskrá setningarinnar.
Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa, þar sem landsmenn eru hvattir til að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á ferðamáta. Vinnustaðir, skólar og einstaklingar eru hvattir til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega.
Á heimasíðu Lífshlaupsins www.lifshlaupid.is má finna ýmislegt gagnlegt og það má einnig senda línu á lifshlaupid@isi.is ef ykkur vantar aðstoð.
Nánari upplýsingar um ráðleggingar um hreyfingu má finna á síðu embættis landlæknis.
Fleiri myndir frá setningunni á finna hér