Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

25

Ellert B. Schram, Heiðursforseti ÍSÍ, látinn

24.01.2025

 

Okkar kæri Heiðursforseti ÍSÍ, Ellert B. Schram, er látinn, 85 ára að aldri.

Ellert varð forseti Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) árið 1991 og varð svo fyrsti forseti sameinaðs sambands ÍSÍ og Ólympíunefndar Íslands árið 1997, allt til ársins 2006 er Ólafur E. Rafnsson tók við forsetaembættinu.

Ellert átti langan feril innan íþróttahreyfingarinnar, fyrst sem iðkandi og afreksíþróttamaður, bæði með félagsliði sínu KR og einnig landsliði Íslands. Hann varð margfaldur Íslandsmeistari og bikarmeistari í knattspyrnu, lék 23 landsleiki á árunum 1959 - 1970 og sinnti margvíslegum leiðtogastörfum innan knattspyrnuhreyfingarinnar og síðar íþróttahreyfingarinnar. Hann var formaður KSÍ 1973 - 1989, sat í stjórn Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) 1982-1986 og 1990-1994, var einn af varaforsetum UEFA 1984-1986 og gegndi áhrifastörfum fyrir UEFA allt til ársins 2010.

Ellert var kjörinn Heiðursforseti ÍSÍ árið 2006 og var sæmdur margvíslegum heiðursviðurkenningum innan íþróttahreyfingarinnar í gegnum árin. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og var einnig Heiðursformaður Knattspyrnusambands Íslands. Ellert var sæmdur heiðursviðurkenningunni EOC Laurel Award eða lárviðarsveig Evrópusambands Ólympíunefnda árið 2018 fyrir frábær störf í þágu íslenskra íþrótta og Ólympíuhreyfingarinnar.

Eftir að Ellert hætti sem forseti ÍSÍ hélt hann mikilli tryggð við sambandið, mætti vel á viðburði á vegum sambandsins og ræktaði tengslin við forsvarsmenn þess. Hann var alltaf hrókur alls fagnaðar, hvetjandi í tali og gjörðum og vildi íþróttahreyfingunni í landinu allt það besta. Ellert helgaði líf sitt íþróttum, meðfram annasömum störfum er hann innti af hendi, meðal annars á vettvangi stjórnmála og ritstarfa. Í hans tíð sem forseti ÍSÍ dafnaði sambandið vel og tekin voru stór skref til framfara og þróunar í starfi þess. Sameining ÍSÍ og Ólympíunefndar Íslands má nefna sem eitt markverðasta skrefið sem tekið var í hans forsetatíð og var mikið gæfuspor fyrir íþróttahreyfinguna.

Framkvæmdastjórn ÍSÍ og starfsfólk sambandsins fyrir dýrmæta og langa samleið og minnast Ellerts með mikilli hlýju og eftirsjá. Hans verður sárt saknað úr starfinu.
Eftir sitja margar ógleymanlegar minningar frá viðburðum og starfi í tíð Ellerts og trygg og gefandi vinátta í gegnum þykkt og þunnt.

Guð blessi minningu Ellerts B. Schram, Heiðursforseta ÍSÍ.

Eiginkonu Ellerts, Ágústu Jóhannsdóttur, börnum Ellerts og fjölskyldu vottum við okkar dýpstu samúð.

Myndir með frétt