Mikil ánægja með ráðstefnuna "Meira eða minna afreks?
Ráðstefnan „Meira eða minna afreks?“ fór fram í Háskólanum í Reykjavík í gær í tengslum við Reykjavíkurleikana - RIG sem standa nú yfir í borginni. Að ráðstefnunni stóðu Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR), Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Háskólinn í Reykjavík. Silja Úlfarsdóttir stýrði ráðstefnunni.
Uppselt var á ráðstefnuna og einnig fylgdust margir með í streymi. Einblínt var á snemmtæka afreksvæðingu í íþróttum barna og ungmenna og áhrif hennar á ungt fólk. Fjallað var um hvenær sérhæfing barna og ungmenna í íþróttum eigi að hefjast, hvernig hægt sé að móta framtíðar afreksfólk án þess að fórna leikgleðinni og hvort að börn sem skara fram úr á barnsaldri verði endilega afreksfólk sem ungmenni og fullorðin.
Á meðal fyrirlesara voru Dr. Carsten Hvid Larsen, yfirsálfræðingur Danska knattspyrnusambandsins, Katie Castle sálfræðingur, fyrrverandi afrekskona í fimleikum og þjálfari, Christian Thue Björndal, dósent við Norska Íþróttaháskólann í Ósló, handknattleiksþjálfari og rannsakandi og Daði Rafnsson, sálfræðingur, doktorsnemi við HR og reynslumikill knattspyrnuþjálfari. Auk þeirra sagði Perla Ruth Albertsdóttir frá sínum óvenjulega handboltaferli, en hún byrjaði í handbolta 17 ára og er landsliðskona í dag.
Margt fróðlegt og forvitnilegt kom fram á ráðstefnunni. Fjallað var um ýmsa þætti í afreksstarfi íþrótta sem geta haft neikvæð áhrif á börn og ungmenni, auknar kröfur og aukinn kostnað sem fylgir því að vera í fremstu röð. Mikill kostnaður lendir á foreldrum ungmenna sem stunda íþróttir á afreksstigi og getur það haft neikvæð áhrif á iðkun í yngri aldurshópum.
Katie Castle talaði um mikilvægi þess að börn fengju að vera börn, geti æft í sínu nærumhverfi og með sínum vinum. Hún ræddi að það væri varhugavert að festa börn í getuhópum þegar þau væru ung, þar sem þau efnilegu ungu yrðu ekki endilega þau bestu þegar þau verða eldri. Hún varpaði einnig ljósi á kostnaðaraukningu í íþróttaþátttöku barna á undanförnum árum.
Daði Rafnsson tók næst til máls. Í hans erindi talaði hann um líkindi á meðal Norðurlandanna í íþróttum barna og unglinga, en þau eru talsverð og byggja meðal annars á lýðræði í félögum, styrkjum og viðurkenningu frá almenningi og sveitarfélögum, mannlegri nálgun og það er pláss fyrir alla. Hann talaði einnig um hvað þriggja ára framhaldsskóli hafi þrengt að íþróttaþátttöku afrekskrakka og mikilvægi þess að það væri samstarf á milli skóla, einstaklingsins og félagsins. Æfingar á skólatíma þýddi að líkur á að nemendur stæðust kröfur skólans um mætingu og árangur minnkuðu til muna.
Dr. Christian Thue Björndal kynnti niðurstöður rannsóknar þar sem afreksíþróttamenn voru spurðir að því af hverju þeir stunduðu íþróttir? Helstu svörin voru; Af því að við elskum íþróttir, íþróttir eru hluti af heilbrigðum lífsstíl, vegna umhverfisins í kringum íþróttir, til að vera með vinum og fjölskyldu, til að ögra okkur sjálfum. Christian varaði við þeirri þróun sem væri að verða í íþróttum barna og ungmenna með snemmbærri sérhæfingu og árangursmælingum á kostnað gleði, félagslegum tengslum og vellíðan. Hann varaði einnig við því að setja of mikla pressu á frammistöðu í íþróttum barna og unglinga, frekar ætti að líta á mistök sem eðlilega þróun í íþróttagreininni í stað þess að refsa fyrir þau.
Saga Perlu Ruthar landsliðskonu í handbolta er um margt frábrugðin sögu flestra sem ná langt í íþróttum, en sýnir að hægt er að komast í fremstu röð, með mikilli vinnu þrátt fyrir að hefja ferilinn seint.
Síðastur tók til máls Dr. Carsten Hvid Larsen. Hann lagði áherslu á að það þyrfti að skapa aðstæður þannig að börn gætu æft fleiri en eina íþróttagrein. Þá talaði hann um mikilvægi þess að horfa á langtíma þróun íþróttamannsins frekar en árangur á unga aldri og taka ætti tillit til aldurs þegar innihald og magn æfinga er ákvarðað. Dr. Carsten talaði einnig um mikilvægi þess að auka samtal og samræmi á milli íþrótta, skóla og fjölskyldu til að fækka árekstrum og auðvelda íþróttamanninum daglegt líf. Hann lagði einnig áherslu á að með þátttöku í íþróttum fái íþróttamaðurinn tækifæri til að þróa með sér sálfélagslega færni sem hann getur tekið með sér áfram út í lífið.
Að erindunum loknum stýrði ráðstefnustjóri pallborðsumræðum. Í pallborði sátu Dr. Hafrún Kristjánsdóttir, prófessor við íþróttadeild HR, Sólveig Jónsdóttir framkvæmdastjóri Fimleikasambands Íslands, Vésteinn Hafsteinsson afreksstjóri ÍSÍ og Jörundur Áki Sveinsson sviðsstjóri hjá Knattspyrnusambandi Íslands, sem svöruðu fyrirspurnum ráðstefnugesta úr sal í gegnum vefsíðuna Slido.