Íþróttafólk Hafnarfjarðar 2025
Árleg íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar fór fram í Íþróttahúsinu við Strandgötu 27. desember 2024.
Elín Klara Þorkelsdóttir handknattleikskona úr Knattspyrnufélaginu Haukum var kjörin Íþróttakona Hafnarfjarðar 2024 og Daníel Ingi Egilsson frjálsíþróttamaður úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar var kjörinn Íþróttakarl Hafnarfjarðar 2024.
Í umsögnum í frétt á heimasíðu ÍBH kemur eftirfarandi fram:
Elín Klara Þorkelsdóttir handknattleikskona úr Knattspyrnufélaginu Haukum. Á tímabilinu 2023-2024 leiddi hún meistaraflokk Hauka til úrslita í Íslandsmótinu. Að tímabilinu loknu var Elín Klara valin besti leikmaður deildarinnar annað tímabilið í röð en Elín var einnig markahæsti leikmaður deildarinnar. Elín Klara átti fast sæti í A-landsliði kvenna á árinu sem tryggði sig inn á lokakeppni Evrópumóts í fyrsta skiptið í 12 ár. Elín Klara var þar í stóru hlutverki þar sem hún stýrði leik liðsins og var ein af markahæstu leikmönnum liðsins. Á árinu lék Elín Klara einnig með U-20 ára landsliðinu þar sem þær léku í lokakeppni HM og náðu 7. sæti sem er besti árangur liðsins fyrr og síðar.
Daníel Ingi Egilsson frjálsíþróttamaður í FH. Daníel hefur náð stórstígum framförum í langstökki og þrístökki síðustu þrjú ár. Hann varð m.a. Norðurlandameistari í þrístökki árið 2023 með 15,98 m. Á þessu ári komst Daníel í hóp þeirra allra bestu í heiminum í langstökki þegar hann varð Norðurlandameistari með 8,21m og bætti þar með 28 ára gamalt Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar. Á þessu ári er Daníel í 17. sæti bestu langstökkvara í heimi. Afrek Daníels Inga er besta afrek FH-ings frá upphafi í frjálsíþróttum og fimmta besta afrek Íslendings í frjálsíþróttum frá upphafi skv.
Afrekslið ársins 2024 í Hafnarfirði var meistaraflokkur karla í handknattleik frá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar.
Meistaraflokkur karla hjá FH varð bæði deildar- og Íslandsmeistarar á árinu. Liðið lék afar vel í deildarkeppninni á síðasta tímabili og endaði á því að tryggja sér deildarmeistaratitillinn í lokaumferð deildarinnar. FH varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn síðan 2011 og í 16. sinn innanhúss. FH-liðið tók einnig þátt í Evrópubikarnum á sl. tímabili og náði þar frábærum árangri.
Nánari upplýsingar um viðurkenningar sem veittar voru á hátíðinni er að finna í frétt á heimasíðu ÍBH.
ÍSÍ óskar ofangreindu íþróttafólki innilega til hamingju með titlana og árangurinn á árinu 2024.
Myndir/ÍBH.